Í þriðju upptökunni af Trúnó fær Valdimar Halldórsson til sín vinina Martin Hermannsson og Elvar Már Friðriksson til þess að ræða allt milli himins og jarðar, en liðið undirbýr sig þessa dagana fyrir lokamót EuroBasket 2025 sem rúllar af stað komandi fimmtudag 28. ágúst.
Þeir félagar og Valli fara yfir víðan völl í upptökunni, eftirvæntingu fyrir mótið, íslenska hópinn, hverju þeir séu góðir í og margt fleira.
Eitt af því sem er til umræðu er vinátta þeirra Elvars Más og Martins, en þeir hafa fylgst að frá blautu barnsbeini. Feður þeirra spiluðu saman fyrir Njarðvík undir lok síðustu aldar og hafa þeir mikið fylgst að bæði er varðar körfubolta og aðra hluti lífsins.
Segir Elvar þá hafa verið vini frá því í vöggu, þeir hafi farið í fyrstu útlandaferðina saman sex ára gamla og að þeir hafi fylgst að í mörgu síðan þeir voru börn. Bætir Martin þá við ,,Held við verðum að þakka foreldrum okkar fyrir þessa vináttu. Byrjar á því að foreldrar okkar eru góðir vinir og voru dugleg að hittast. Ég man ekki eftir lífinu nema Elvar sé í því. Við vorum settir saman snemma.”
Lýsa Martin og Elvar því einnig þegar þeir voru yngri og skiptust á að taka rútuna til hvors annars fyrir helgar sem þeir eyddu heima hjá hvorum öðrum, hjá Martin í Vesturbæ Reykjavíkur eða hjá Elvari í Njarðvík. Segir Martin ,,Ég er búinn að vera með konunni minni í 13 ár, en ég er ekkert viss um að ég hafi sofið oftar hliðiná henni heldur en Elvari.”
Trúnó með Valla er aðgengilegt hér fyrir neðan og á öllum helstu hlaðvarpsveitum undir nafni Körfunnar



