Gestgjafaþjóð Íslands á EuroBasket Póllandi tilkynnti á dögunum hvaða 12 leikmenn það verða sem mæta til leiks í Katowice er lokamótið rúllar af stað í næstu viku.
Um er að ræða nokkuð sterkan pólskan hóp sem samanstendur af Aleksander Balcerowski, Aleksander Dziewa, Tomasz Gielo, Kamil Laczynski, Jordan Loyd, Michal Michalak, Dominik Olejniczak, Andrzej Pluta, Mateusz Ponitka, Michal Sokolowski, Szymon Zapala, Przemyslaw Zolnierewicz.
Helmingur þessa hóps leikur í heimalandinu Póllandi fyrir sterk lið þar, sem sum taka einnig þátt í Evrópukeppnum. Einn af þeim verandi Michal Michalak sem á næsta tímabili verður liðsfélagi Elvars Más Friðrikssonar hjá Anwil Wloclawek í Póllandi, en hann hefur verið mikilvægur pólska liðinu í undirbúningi þeirra síðustu vikur, setti 17 stig gegn Georgíu á dögunum og 12 stig gegn Finnlandi nú fyrir helgina.
Þeir sem leika ekki í Póllandi eru sex og dreifast þeir nokkuð vel. Tveir leika á Ítalíu, einn í Tyrklandi, einn í Frakklandi og tveir á Spáni, að sjálfsögðu í efstu deildum þar. Annar þeirra er leikur á Spáni var liðsfélagi Tryggva Snæs Hlinasonar hjá Evrópumeisturum Bilbao, Tomas Gielo, en hann hefur reyndar samið við lið í Póllandi fyrir næsta tímabil.
Lykilleikmaður Pólska liðsins síðustu ár er hinn 32 ára Mateusz Ponitka sem á að baki gífurlega farsælan feril í bestu landsdeildum Evrópu og EuroLeague, en hann leikur nú fyrir Bahçeşehir Koleji í Tyrklandi og FIBA Europe Cup. Hann er á leiðinni á sitt fimmta Evrópumót með liðinu. Líklega hans besta frammistaða á síðasta EuroBasket, þegar hann og pólska liðið slógu út Slóveníu í átta liða úrslitum og hann skilaði 26 stigum, 16 fráköstum og 10 stoðsendingum í leiknum.
Stóru fréttirnar varðandi pólska hópinn síðustu daga og vikur hafa verið þær að leikmaður þeirra og San Antonio Spurs í NBA deildinni Jeremy Sochan meiddist og verður því ekki með liðinu á mótinu. Þungt högg fyrir pólska hópinn, en samband þeirra deyr ekki ráðalaust. Fengu til sín bandarískan bakvörð sem leikur fyrir Mónakó í Frakklandi og EuroLeague, Jordan Loyd, létu hann hafa pólskan ríkisborgararétt og mun hann leika sína fyrstu leiki í móti fyrir Pólland í lokakeppninni. Reyndar var Jordan annar tveggja sem þjálfarar pólska liðsins fengu að velja úr (má bara hafa einn í liðinu) þar sem leikmanni Rytas í Litháen Jerrick Harding var einnig rétt vegabréf til þess að geta spilað fyrir liðið og spurning er hvort sá verði í hóp þeirra í komandi undankeppnum ef Jordan er vant við látinn.
Íslenska liðið hefur leik á lokamótinu komandi fimmtudag 28. ágúst með leik gegn Ísrael. Leikur Íslands gegn Póllandi er svo á dagskrá þann 31. ágúst, en hérna er hægt að skoða leikjadagskrá mótsins.



