spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2025Fín frammistaða ekki nóg gegn sterku liði Litháen

Fín frammistaða ekki nóg gegn sterku liði Litháen

Litháen lagði Ísland í Alytus Arena í kvöld í lokaæfingaleik liðanna fyrir EuroBasket 2025, 96-83.

Fyrir leik

Gengi liðanna tveggja í æfingaleikjum hafði verið nokkuð ólíkt, þar sem Ísland hafði unnið einn leik af fjórum á meðan Litháen hafði unnið fimm af sínum sex leikjum.

Liðin tvö Ísland og Litháen ekki mæst oft í gegnum tíðina. Síðast var það í æfingaleik fyrir EuroBasket 2017. Þá hafði Litháen nokkuð öruggan sigur, 84-62.

Nokkuð góð stemning var í Alytus Arena í kvöld, þar sem uppselt var í þessa 4000 áhorfenda höll og stuðningsmenn heimamanna kvöddu sitt lið fyrir ferðina á lokamótið.

Byrjunarlið Íslands

Martin Hermannsson, Elvar Már Friðriksson, Jón Axel Guðmundsson, Orri Gunnarsson og Tryggvi Snær Hlinason.

Gangur leiks

Heimamenn í Litháen voru með góða stjórn á leiknum allt frá fyrstu mínútu. Bæði voru þeir duglegir að frákasta boltanum og þá hjálpaði það þeim að Ísland virtist eiga í mestu erfiðleikum með að setja (annars opin) skot sín. Munurinn 9 stig að þeim fyrsta loknum, 23-14.

Með góðri rispu frá Elvari Má og síðan Sigtryggi Arnari nær íslenska liðið að skera forskot heimamanna niður í 4 stig í öðrum fjórðungnum, 35-31. Litháíska liðið heldur þó enn 9 stiga forystunni til búningsherbergja í hálfleik, 47-38.

Stigahæstir fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Elvar Már með 12 stig og Martin var með 9 stig.

Mynd / Jón Gauti Hannesson

Nokkuð verra fyrir leik Íslands í kvöld var að Elvar Már þurfti að yfirgefa leikinn í upphafi seinni hálfleiksins, en hann hafði verið frábær fyrir íslenska liðið í fyrri hálfleiknum. Litháen nær að bæta aðeins í og fara þeir mest með forskot sitt í 20 stig laust eftir miðbygg þess þriðja. Íslenska liðinu tekst þó að klóra aðeins til baka og er munurinn aðeins 14 stig fyrir lokaleikhlutann, 76-62.

Heimamenn eru áfram með tögl og haldir í leiknum í þeim fjórða. Íslenska liðið prófar nokkrar samsetningar leikmanna á vellinum í leikhlutanum með ágætis árangri. Nýjasti leikmaður liðsins Almar Orri Atlason á nokkrar fínar mínútur á báðum endum vallarins í leikhlutanum ásamt góðu framlagi frá Hilmari Smára Henningssyni. Litháen heldur í þægilega forystu til enda leiksins, sem að lokum fer 96-83.

Stigahæstir

Stigahæstur fyrir Ísland í kvöld var Martin Hermannsson með 13 stig. Við það bættu Elvar Már Friðriksson 12 stigum, Jón Axel Guðmundsson 10 stigum, Tryggvi Snær Hlinason 10 stigum og Kristinn Pálsson 10 stigum.

Kjarninn

Bæði lið/þjálfarar voru ófeimnir við að taka leikhlé til þess að leggja upp hinar ýmsu breytingar í leik kvöldsins og má að einhverju leiti skrifa það á að þetta hafi verið æfingaleikur. Því mögulega erfitt að ætla að draga einhvern mikinn skilning úr lokaniðurstöðu leiksins. Litháen vann hann þó að mestu vegna þess þeir fráköstuðu boltanum vel, bæði varnar- og sérstaklega sóknarlega. Þá virtist íslenska liðið oft eiga erfitt með að setja opin skot, eða, þau voru ekki að detta með þeim í leiknum. Liðið átti þó marga fína spretti í leiknum og náðu nokkrir af minni spámönnum liðsins að gera vel, þá sérstaklega Sigtryggur Arnar, Hilmar Smári og Almar Orri.

Hvað svo?

Nú fara bæði liðin á lokamót EuroBasket. Riðill Íslands verður spilaður í Katowice í Póllandi á meðan Litháen ferðast til Tampere í Finnlandi þar sem þeirra riðill verður leikinn.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -