spot_img
HomeFréttirHaukur Helgi: Gríðarlegt högg

Haukur Helgi: Gríðarlegt högg

Eins og flestir vita þá varð Haukur Helgi Pálsson að draga sig úr landsliðinu á ögurstundu eftir að hafa meiðst í æfinga leik gegn Portúgal á dögunum. Haukur sem er einn reynslumesti leikmaður liðsins til þessa var að vonum gríðarlega svekktur með niðurstöðuna þegar hann fékk þau tíðindi að hann yrði í aðgerð á barka eftir högg frá leikmanni Portúgals.

“Að mér fannst var þetta ekkert óvenjulegt þannig séð, ég fékk eitthvað högg á barkann í leiknum. Óviljaverk svo sem og gerist bara eins og margt annað í svona leikjum, en við höggið þá kemur brot í brjóskið blæðing inn á raddbönd. Þetta verður til þess að þetta fer á hreyfingu og til að laga dæmið þá er aðgerð á þriðjudag nk. sem verður ekki komist hjá. Að auki þá er þetta þannig viðkvæmt að ég má ekki fá neitt högg meira á þetta.” sagði Haukur Helgi fremur niðurdreginn við Karfan.is í gær.

Það þarf líkast til ekki að fjölyrða um þau vonbrigðin sem fylgja þessu hjá þessum stríðsmanni sem að öllu jöfnu gefur sig alltaf að fullu í verkefnin. ” Já þú getur rétt ýmindað þér. Þetta er það sem körfuknattleiksmenn dreymir alla ævi, að komast á stóra sviðið og máta sig við þá bestu. Ég hef verið svo lukkulegur að hafa farið á tvö mót en hungrið er enn í mér, annars væri ég ekki að þessu. Þannig að já, þetta eru gríðarleg vonbrigði.”

Haukur vonast þó til að getað flogið út eftir aðgerð og mannað hliðarlínuna til að hvetja lið sitt áfram og miðla reynslu. “Það var erfitt að koma þessu frá mér við strákana og gríðarlegt högg á sálina, loksins þegar maður er komin í sitt besta form síðan ég kom heim að þá er eitt lítið högg sem skellir manni nánast á byrjunarreit. En ef allt gengur að óskum þá fer ég út á föstudag og geri það sem ég get með hópnum. Ég vil klára þetta með þeim og þeir vilja fá mig. Auðvitað snýst þetta ekkert um mig heldur um liðið okkar. Þrátt fyrir myrkur hjá mér þá er það bullandi sól og birta í því að liðið er á lokakeppni EM, allir hraustir þar og ætla að slást fyrir Ísland og stuðningsmennina. Nú verð ég stuðningsmaður númer 1 og stend mig bara í því hlutverki!” sagði Haukur Helgi að lokum.

Fréttir
- Auglýsing -