spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2025Mæta einu sterkasta liði heims í síðasta æfingaleiknum fyrir EuroBasket

Mæta einu sterkasta liði heims í síðasta æfingaleiknum fyrir EuroBasket

Íslenska landsliðið er á lokametrum í undirbúningi sínum fyrir lokamót EuroBasket sem rúllar af stað nú í lok mánaðar. Liðið hélt af landi brott í gær til Litháen, þar sem þeir munu mæta heimamönnum í dag. Þaðan mun liðið svo ferðast til Katowice í Póllandi þar sem lokamót EuroBasket mun fara fram.

Leikur dagsins er lokaæfingaleikur beggja liða fyrir lokamót EuroBasket, en eftir hann mun Ísland ferðast til riðlakeppni mótsins til Póllands á meðan Litháen fer yfir til Finnlands þar sem riðill þeirra er leikinn.

Það er óhætt að segja að mótherji dagsins sé af erfiðari gerðinni. Síðan Litháen fékk sjálfstæði aftur í upphafi tíunda áratugs síðustu aldar hefur lið þeirra verið tíður gestur á verðlaunapöllum allra helstu keppna. Í þrígang hafa þeir unnið brons á Ólympíuleikunum, í eitt skipti brons á heimsmeistaramótinu og á EuroBasket hafa þeir unnið gull í eitt skipti, silfur í þrjú skipti og brons í eitt skipti.

Þrátt fyrir þessa glæstu sögu síðustu rúmu þrjátíu ára hjá liðinu hefur þeim ekki tekist að vera á verðlaunapalli á EuroBasket síðan þeir unnu silfrið í Frakklandi 2015. Vissulega tefla nánast alltaf fram sterku liði, en liðið sem Ísland mætir í dag er talið einkar sterkt, sett saman til þess að koma liðinu og þessari stórkostlegu körfuboltaþjóð aftur á verðlaunapall.

Liðinu hefur einnig tekist að vera nokkuð afgerandi í æfingaleikjum sínum til þessa. Samanborið við Ísland sem hefur unnið einn leik og tapað þremur hefur Litháen unnið fimm og tapað aðeins einum æfingaleikja sinna.

litið til þeirra tólf sem liðið kynnti á dögunum sem lokahóp sinn á EuroBasket er ljóst að um sterkan hóp er að ræða þar sem margir leikmanna þeirra leika í bestu deildum Evrópu eða í NBA deildinni. Eitt nafn þó stærra en hin á liðsblaðinu í miðherja Denver Nuggets í NBA deildinni Jonas Valanciunas, en hann á að baki gífurlega farsælan 13 ára feril í deildinni vestanhafs.

Jonas er 33 ára gamall og lék fyrst fyrir landsliðið 2011, verður þetta því sjötta EuroBasket mótið hans og hugsanlega hans síðasta tækifæri til að láta til sín taka á EuroBasket eftir að hafa verið í liðum sem unnu silfur 2013 og 2015. Á síðasta tímabili skilaði hann 12 stigum og 8 fráköstum að meðaltali í leik með Washington Wizards í NBA deildinni áður en honum var skipt til Denver seint á tímabilinu.

Leikur Íslands gegn Litháen er á dagskrá kl. 16:30 að íslenskum tíma og verður hann í beinni útsendingu á RÚV.

Fréttir
- Auglýsing -