Ármenningar tilkynntu fyrr í dag að liðið hefði samið við Daniel Love um að leika með liðinu í Bónus deildinni á næstu leiktíð. Daniel þekkir vel til deildarinnar en hann lék með Álftanesi og Haukum fyrir tveimur árum og var þar hluti af fyrstu leikmannaskiptum íslensku deildarinnar þegar hann fór á milli félaganna. Á síðustu leiktíð varð hann meistari í sænsku úrvalsdeildinni en leikur á næstu leiktíð með nýliðum Ármanns.
Á dögunum samdi Ármann við þá Marek Dolezaj, Dibaji Walker og Braga Guðmundsson um að leika með liðinu. Auk þess endursamdi liðið við Arnald Grímsson, Cedrick Bowen, Kára Kaldal og Frosta Valgarðsson.
Tilkynningu Ármenninga má finna í heild sinni hér að neðan:
Daniel Love til liðs við Ármann
Körfuknattleiksdeild Ármanns hefur samið við sænska bakvörðinn Daniel Love um að leika með félaginu á komandi tímabili í Bónus deild karla.
Daniel Love er 190 cm hár og leikur í stöðu bakvarðar. Hann er fæddur í Orlando, Flórída, og útskrifaðist frá Eckerd College árið 2023. Á síðasta tímabili lék hann með Norrköping Dolphins í sænsku úrvalsdeildinni þar sem hann varð sænskur meistari, auk þess að spila í FIBA Europe Cup og Meistaradeild Evrópu. Daniel þekkir vel til Íslands en hann lék með Álftanesi og Haukum tímabilið 2023-2024 í Bónus deildinni.
Love er með tvöfalt ríkisfang, bandarískt og sænskt, og kemur til Ármanns með reynslu og fjölbreytta hæfileika sem munu styrkja liðið verulega.
Daniel er fjölhæfur bakvörður sem styrkir ungt og öflugt lið Ármanns fyrir komandi átök í Bónus deildinni. Auk þess að leika með liðinu mun hann þjálfa elstu flokka og fá iðkenndur þar frábæra fyrirmynd til að fylgjast með.
Daniel Love mun hefja æfingar með liðinu á næstu vikum og verður tilbúinn þegar tímabilið hefst í haust. Hann sendi Ármenningum skilaboð við undirskrift:
„What’s up Armann, super excited to be joining the team! Looking forward to meeting all of you and ready to get to work! Its going to be a great season, going to need all the support! Let’s gooo!!“



