spot_img
HomeFréttirErfitt hjá íslenska liðinu gegn Litháen í Matosinhos

Erfitt hjá íslenska liðinu gegn Litháen í Matosinhos

Undir 20 ára lið kvenna leikur þessa dagana í A deild Evrópumótsins í Matosinhos í Portúgal.

Eftir að hafa komist í gegnum 16 liða úrslit mótsins í gær með glæsilegum sigri gegn Hollandi mátti liðið þola tap í 8 liða úrslitunum gegn Litháen í kvöld, 96-76.

Íslenska liðið fór nokkuð hægt af stað í leik kvöldsins og voru komnar 9 stigum undir eftir fyrsta leikhluta, 26-17. Staðan skánaði ekki undir lok fyrri hálfleiksins, en þegar liðin héldu til búningsherbergja munaði 14 stigum, 51-37.

Segja má að Litháen hafi gert útum leikinn í upphafi seinni hálfleiks. Vinna þriðja fjórðung með 19 stigum og eru með þægilega 33 stiga forystu fyrir lokaleikhlutann. Ísland gerði ágætlega í þeim fjórða, en voru hinsvegar komnar of langt frá þeim til þess að eiga möguleika. Niðurstaðan að lokum 20 stiga ósigur, 96-76.

Ótrúleg tölfræði leiksins var kannski sú að Litháen fékk heil 45 víti í öllum leiknum á móti aðeins 14 vítaskotum sem Ísland fékk. Þetta var ansi stór biti fyrir Ísland að kyngja, en Litháen var að skjóta boltanum með 78% nýtingu af vítalínunni og fengu þær því 35 sinna stiga þannig í leik kvöldsins.

Tekið skal fram að vegna misræmis á leikskýrslu og stigatöflu eru endanlegar tölur leiksins ekki á hreinu. Samkvæmt heimildum Körfunnar mun þó vera unnið að því að komast að hver nákvæmleg lokastaða var, en það er ekki talið muna meira en þremur stigum í hvora áttina.

Stigahæstar fyrir Ísland í leiknum voru Kolbrún Ármannsdóttir með 18 stig og Jana Falsdóttir með 13 stig.

Tölfræði leiks

Tapið þýðir að Ísland verður ekki Evrópumeistari þetta árið. Mótið er þó ekki búið hjá liðinu, en næst munu þær leika í umspili um sæti 5 til 8 á mótinu gegn Belgíu á laugardag. Litháen mun halda áfram í fjögurra liða úrslitin þar sem þær mæta Svíþjóð.

Upptaka af leiknum

Fréttir
- Auglýsing -