Tindastóll hefur samið við Marta Hermida fyrir komandi leiktíð í Bónus deild kvenna. Staðfestir félagið þetta á samfélagsmiðlum fyrr í dag.
Marta er 176 cm spænskur bakvörður/framherji sem kemur til Tindastóls frá Kutxabank Araski í heimalandinu, en fyrir utan eitt tímabil í Frakklandi hefur hún leikið í efstu deild á Spáni síðustu fimm tímabil.
Martin þjálfari segir Mörtu vera púslið sem vantaði í liðið „Hún er fjölhæfur leikmaður sem getur gert eitthvað af öllu á vellinum, en einkum og sér í lagi getur hún skorað á fjölbreyttan máta. Hún er góð þriggja stiga skytta, hún er góð einn-á-einn og er flink í að brjóta sér leið að körfunni. Hún getur líka spilað nokkrar stöður, td. sem leikstjórnandi. Ég hlakka til að fá hana á Sauðárkrók“
Marta segist þakklát fyrir að fá tækifæri til að kynnast íslensku deildinni, „Tindastóll er frábært lið til að kynnast íslenskum körfubolta. Martin þjálfari vill spila á svipaðan hátt og ég er mjög hrifin af svo ég hlakka mikið til og er viss um að við munum ná góðum árangri. Ég hlakka til að koma til Sauðárkróks og kynnast fólkinu, ég hef heyrt svo margt fallegt um bæinn og samfélagið.“
„Marta er leikmaður í heimsklassa sem mun hjálpa okkur að halda áfram að þróa kvennaliðið okkar áfram. Við hlökkum til að sjá hana í Tindastólsbúningi í vetur“ segir Dagur Þór, formaður.



