Fylkir hefur samið við fjóra leikmenn frá samstarfsfélaginu Val: Finn Tómasson, Símon Tómasson, Óðinn Þórðarson og Jóhannes Ómarsson.
Finnur Tómasson var á venslasamningi hjá Fylki í fyrra frá Val. Hann er uppalinn í Val og hefur verið hluti af meistaraflokkshópnum þar síðustu ár. Finnur var með 20 stig, 3 stoðsendingar og stolinn bolta í leik í fyrra í annarri deildinni með Fylki, auk þess að vera með 39% þriggja stiga nýtingu.
Símon Tómasson var einnig á venslasamningi hjá Fylki í fyrra. Hann hefur einnig spilað fyrir Ármann og Hrunamenn. Símon var með 10 stig, 2 stoðsendingar og stolinn bolta í fyrra með Fylki í annarri deildinni.
Óðinn Þórðarson var á venslasamningi frá Val í fyrra. Hann skilaði 13 stigum, 7 fráköstum og 4 stoðsendingum í leik hjá Fylki í annarri deildinni.
Jóhannes Ómarsson er nýr í Fylki. Hann hefur glímt við meiðsli undanfarið, en er fyrrum U16 landsliðsmaður.„Við erum gríðarlega ánægðir að halda strákum í Fylki og fá Jóa inn. Þeir stóðu sig vel í annarri deildinni og eru búnir að vinna sér inn tækifærið að spila í þessari deild. Það er einnig ánægjulegt að geta búið til umhverfi þar sem ungir íslenskir fá tækifæri til að blómstra. “ segir Víkingur Goði Sigurðarson, þjálfari meistaraflokks Fylkis.



