Hörður Unnsteinsson mun taka við starfi Arnars Guðjónssonar hjá KKÍ sem afreksstjóri sambandsins. Tilkynnir sambandið aðildarfélögum sínum þetta í tölvupósti fyrr í dag.
Líkt og segir í pósti til félaga hefur Hörður gífurlega reynslu og þekkingu úr körfuknattleikshreyfingunni. Síðastliðin ár hefur hann þjálfað hjá KR og meðal annars meistaraflokk kvenna þar sem hann kom liðinu aftur í fremstu röð á síðasta tímabili, en hjá KR vann hann við uppbyggingu og þjálfun kvennflokka félagsins. Einnig hefur hann unnið hjá Sýn við umsjón á Körfuboltakvöldi Bónus deildar kvenna við góðan orðstýr og fleira tengt sjónvarpsútsendingum þar.
Hörður mun hefja störf á skrifstofu sambandsins í byrjun ágúst.
Samkvæmt færslu Harðar á samfélagsmiðlum mun hann ekki halda áfram með Körfuboltakvöld kvenna. Hann mun þó ekki alveg hafa skilið við sjónvarpið að fullu, en í samtali við Körfuna staðfesti Hörður að hann muni að öllum líkindum sinna einhverjum sjónvarpsverkefnum tengdum deildunum á komandi tímabili.



