Undir 16 ára drengjalið Íslands lagði Eistland í dag í þriðja leik sínum á Norðurlandamótinu í Kisakallio, 109-96. Það sem af er hefur liðið því unnið tvo leiki og tapað einum, en næst eiga þeir leik á laugardaginn gegn Danmörku.
Fyrir leik
Eftir að hafa unnið fyrsta leik mótsins gegn Noregi á þriðjudag tapaði Ísland nokkuð stórt fyrir Svíþjóð í gær. Liðið var þó inni í þeim leik nánast allan tímann, eða allt fram inn í fjórða leikhluta þegar þeir lentu í miklum vandræðum sóknarlega. Áhugavert var að sjá hvernig liðið brást við þessu stóra tapi í dag.

Gangur leiks
Strax frá fyrstu mínútu leiksins hefur íslenska liðið góð tök á leiknum. Eru að komast á alla þá staði sem þeir vilja fara á sóknarlega og halda Eistlandi í aðeins 11 stigum í fyrsta fjórðungnum. Munurinn 11 stig fyrir annan, 22-11. Íslenska liðið bætir svo aðeins í í upphafi annars leikhlutans og ná mest 22 stiga forystu í öðrum fjórðung, en munurinn er 18 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 46-28.
Stigahæstir fyrir Ísland í fyrri hálfleiknum voru Kormákur Jack og Benoní Andrason með 11 stig hvor.
Eistneska liðið mætir miklu tilbúnara til leiks inn í seinni hálfleikinn og nær 20-10 áhlaupi á fyrstu fimm mínútum þriðja fjórðungs. Skera forskot Íslands enn frekar niður í þrjú stig undir lok þess þriðja, 64-61, fyrir lokaleikhlutann.
Eistland nær svo að jafna leikinn í fyrsta skipti síðan á upphafsmínútunum þess fjórða, 65-65. Ísland nær þó að vera skrefinu á undan inn í fjórðunginn, en það munar ekki miklu, eins stigs munur þegar fjórar eru eftir, 74-73. Íslenska liðið gerir þó vel á lokamínútunum. Ná að herða vörnina aðeins og gengur ágætlega að sækja á pressu eista og eru 4 stigum yfir inn í lokamínútuna.
Á einhvern undraverðan hátt nær Eistland að jafna leikinn í stöðunni 85-85, vinna boltann og fá tækifæri til þess að sigra leikinn með lokasókn þegar um þrettán sekúndur eru til leiksloka. Þar setja þeir þrist, en Daníel Snorrason gerir sér lítið fyrir og jafnar leikinn á hinum endanum, 88-88, og það þarf að framlengja.
Ísland er svo mun sterkari aðilinn í framlengingunni. Þurfa samt alveg að hafa fyrir því. Vinna að lokum gífurlega sterkan sigur, 109-96.
Kjarninn
Íslenska liðið var betri aðilinn í leiknum. Hefði verið agalegt fyrir þá að vinna þennan leik ekki, leikur sem aldrei átti að vera spennandi, getumunurinn virtist allavegana slíkur í fyrri hálfleiknum. Má svosem alveg hrósa þeim fyrir það líka, að hafa mætt og sýnt hvað í þeim bjó í þeim seinni og í framlengingunni, það er víst aldrei gefið.

Atkvæðamestir
Benoní Andrason var stórkostlegur fyrir Ísland í dag. Skilaði 26 stigum, 20 fráköstum, 4 stoðsendingum og 2 stolnum boltum. Honum næstir voru Daníel Snorrason með 22 stig, 4 fráköst, 6 stoðsendingar, 3 stolna bolta og Almar Jónsson með 20 stig, 6 fráköst og 3 stoðsendingar
Hvað svo?
Íslensku liðin eiga frídag á morgun föstudag, en á laugardaginn munu þau mæta Danmörku í næst síðasta leik mótsins.



