KR hefur samkvæmt heimildum samið við Kristrúnu Ríkeyju Ólafsdóttur fyrir komandi tímabil í Bónus deild kvenna.
Kristrún er 21 árs miðherji sem síðast lék fyrir Hamar/Þór í Bónus deildinni, en hún hefur áður verið á mála hjá Þór Akureyri og Haukum, en á Akureyri hóf hún meistaraflokksferil sinn aðeins 14 ára gömul tímabilið 2018-19. Ásamt því hefur Kristrún leikið fyrir öll yngri landslið Íslands og var svo fyrr á þessu ári valin í fyrsta skipti í A landslið Íslands.
Samningur nýliða KR við hana er til tveggja ára.
Kristrún á ekki langt að sækja KR-inginn í sér, en faðir hennar Ólafur Jón Ormsson lék um árabil fyrir félagið. Ólafur gerði garðinn frægan með liði KR á árunum 1996-2002, en það ber auðvitað hæst árið 2000 þegar hann leiddi Íslandsmeistaralið KR sem fyrirliði. Ólafur var jafnframt valinn körfuboltamaður ársins það sama ár.
Kristrún Ríkey Ólafsdóttir, nýr leikmaður KR:
,,Mér líst mjög vel á að koma loksins í KR. Það eru spennandi tímar og mikil áskorun framundan sem ég hlakka til að takast á við með stelpunum og Danna.“
Daníel Andri Halldórsson, þjálfari mfl. kvenna:
,,Ég er gríðarlega ánægður að Kristrún hafi ákveðið að taka slaginn með okkur. Hún er fjölhæfur leikmaður með reynslu í efstu deild sem mun nýtast vel í ungan og efnilegan hóp KR-inga sem stíga sín fyrstu skref á stóra sviðinu í haust.”
Mynd / Antonio Otto Rabasca



