Nýliðar Ármanns tilkynntu rétt í þessu að liðið hefði samið við bandarískan leikmann fyrir komandi átök í Bónus deild kvenna. Khiana kemur frá Tékklandi þar sem hún spilaði í sterkri deild. Khiana er næstum alnafna Kiönu Johnson sem lék með Val fyrir nokkrum árum og varð íslandsmeistari.
Tilkynningu Ármanns má finna hér að neðan:
Körfuknattleiksdeild Ármanns hefur samið við bandaríska leikmanninn Khianu Johnson fyrir komandi tímabil í Bónus deild kvenna, þar sem Ármann tekur þátt sem nýliði eftir frábæran árangur í 1. deild á síðasta tímabili.
Khiana Johnson er 26 ára gamall leikstjórnandi frá Chesapeake í Virginíu, Bandaríkjunum. Hún útskrifaðist frá Radford University árið 2020 þar sem hún lék lykilhlutverk í liði skólans og var meðal annars valin í All-Big South First Team á lokaári sínu. Hún lauk ferlinum í háskólaboltanum með yfir 1.000 stig og var í hópi 100 bestu leikmanna landsins í stoðsendingum
Eftir háskólaferilinn hefur Khiana leikið sem atvinnumaður í Króatíu, Rúmeníu, Sviss og síðast í tékknesku úrvalsdeildinni með DSK Brandýs nad Labem, þar sem hún skoraði að meðaltali 10 stig, gaf 2,3 stoðsendingar og tók 2,2 fráköst á leik. Í Króatíu var hún valin besti leikmaður deildarinnar og leiddi deildina í stigum og stoðsendingum.
„Við erum gríðarlega spennt að fá Khiönu til liðs við okkur,“ segir Karl Guðlaugsson, þjálfari Ármanns. „Hún kemur með þá orku, leikreynslu og gæði sem við viljum byggja á í okkar fyrstu skrefum í efstu deild. Hún mun án efa verða lykilleikmaður í okkar vegferð.“
Ármann stefnir hátt í Bónus deildinni og undirbúningur fyrir tímabilið er þegar hafinn af krafti. Með tilkomu Khiönu Johnson er ljóst að liðið ætlar sér að vera samkeppnishæft frá fyrsta leik.
Við bjóðum Khiana Johson hjartanlega velkomna til Íslands og hlökkum til að sjá hana í bláa búningnum í vetur!



