spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaSpenntur að klæðast KR treyjunni á ný

Spenntur að klæðast KR treyjunni á ný

KR hefur á nýjan leik samið við Linards Jaunzems og mun hann leika með liðinu á komandi tímabili í Bónus deild karla.

Linards sem er 30 ára gamall og frá Lettlandi kom upphaflega til félagsins fyrir nýafstaðið tímabil og skilaði hann 21 stigi, 8 fráköstum og 3 stoðsendingum að meðaltali í leik með nýliðunum.

KR mistókst að komast í úrslitakeppnina á þessu fyrsta tímabili sínu aftur í efstu deild, en þeir enduðu í 9. sæti deildarinnar. Þá unnu þeir til silfurverðlauna í bikarkeppninni eftir að hafa tapað úrslitaleik gegn sterku liði Vals.

Tilkynningu KR má lesa hér fyrir neðan:

Körfuknattleiksdeild KR og Linards Jaunzems hafa komist að samkomulagi um að Linards leiki með meistaraflokki karla á komandi keppnistímabili. Linards átti frábært tímabil með KR í Bónusdeild karla í vetur.

Linards er 30 ára gamall Letti, 200 sm á hæð og spilar í stöðu framherja. Linards átti frábært tímabil með KR í Bónusdeild karla en hann var með 20,8 stig, 7,9 fráköst og 3,4 stoðsendingar að meðaltali í leik.

Áður en Linards kom til KR sl. haust þá hafði hann leikið allan sinn feril í heimalandi sínu, í sameinaðri úrvalsdeild Eistlands og Lettlands (LEBL).

Linards Jaunzems:

,,Ég mjög spenntur að klæðast KR treyjunni á ný. Tilfinningin er að við eigum óklárað verk eftir síðasta tímabil og ég er mjög mótiveraður að hjálpa klúbbnum að bæta fleiri titlum í safnið. Það er einstök tilfinning að spila fyrir framan okkar frábæru stuðningsmenn og ég fann það sterkt í bikarvikunni hvað þeir gefa okkur mikla orku. Ég er líka spenntur að vinna áfram með Jakobi, við náðum mjög vel saman og ég veit að við munum byggja á því áfram. Umgjörðin í klúbbnum er frábær og það er hugsað vel um okkur leikmennina. Fyrst og fremst er ég stoltur og þakklátur að fá að spila fyrir sigursælasta félag á Íslandi.”

Jakob Örn Sigurðarson, þjálfari meistaraflokks karla:

“Linards er fjölhæfur leikmaður sem passar mjög vel inn í íslensku deildina. Hann var frábær fyrir okkur á síðasta tímabili og féll virkilega vel inn í hópinn sem og félagið í heild sinni, bæði körfubolta- og hugarfarslega. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að hafa Linards, ásamt okkar íslensku strákum, áfram til þess að byggja ofan á seinasta tímabil.”

Hlökkum til að sjá Linards aftur í svörtu og hvítu á næsta tímabili. Áfram KR!

Fréttir
- Auglýsing -