Haukar lögðu Njarðvík í IceMar höllinni í kvöld í öðrum leik úrslitaeinvígis Bónus deildar kvenna, 72-90.
Haukar því komnar í afar vænlega stöðu í einvíginu og þurfa aðeins einn sigurleik í viðbót til þess að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.
Leikur kvöldsins var nokkuð jafn á upphafsmínútunum. Haukar eru skrefi á undan fyrstu mínúturnar, en undir lok þess fyrsta snúa heimakonur því við og eru þremur stigum yfir að fjórðungnum loknum, 22-19. Þá forystu nær Njarðvík að byggja á í öðrum leikhlutanum þar sem þær komast mest 10 stigum yfir, en Haukar laga það fyrir lok hálfleiksins. Munurinn enn þrjú stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 41-38.
Grunninn að góðum sigri sínum lögðu Haukar í upphafi seinni hálfleiksins. Spila fantavörn og fá skot til að detta hinum megin á vellinum í þriðja leikhlutanum og vinna fjórðunginn 7-19. Munurinn því 9 stig fyrir lokaleikhlutann, 48-57.
Í fjórða leikhlutanum gera Hauka svo vel að sigla sigrinum í höfn. Setja körfur í öllum regnbogans litum og vinna að lokum nokkuð öruggan sigur, 72-90.
Atkvæðamestar fyrir Hauka í leiknum voru Lore Devos með 18 stig, 10 fráköst og Rósa Björk Pétursdóttir með 15 stig og 12 fráköst.
Fyrir Njarðvík var Paulina Hersler atkvæðamest með 25 stig og 11 fráköst. Þá bætti Emilie Hesseldal við 14 stigum og 15 fráköstum.
Haukar geta því tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á heimavelli í næsta leik, en hann fer fram komandi miðvikudag 7. maí.



