Leikmaður Álftaness Hörður Axel Vilhjálmsson hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna. Staðfesti hann það í viðtali við Körfuna eftir leik gegn Tindastóli í kvöld.
Hörður er að upplagi úr Fjölni, en á að baki gífurlega langan feril sem atvinnumaður fyrir lið á Íslandi og á meginlandi Evrópu. Á Íslandi lék hann lengst af fyrir Keflavík, en þá var hann einnig um tíma leikmaður Njarðvíkur og þá endaði hann ferilinn með Álftanesi.
Sem atvinnumaður fyrir utan landsteina lék hann fyrir fjölda mörg félög á Spáni, í Þýskalandi, Grikklandi, Kasakstan, Tékklandi og Belgíu.
Þá var hann um tíma fyrirliði íslenska landsliðsins, en með þeim lék hann 96 leiki og var mikilvægur leikmaður liðsins sem vann sig í fyrstu tvö skiptin á lokamót EuroBasket, 2015 og 2017.



