Haukar lögðu Njarðvík í kvöld í Ólafssal í fyrsta leik úrslita Bónus deildar kvenna, 86-79.
Haukar eru því komnar með yfirhöndina í einvíginu, 1-0, en vinna þarf þrjá leiki til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.
Á leið sinni til úrslita höfðu bæði lið unnið 3-0 sigur í undanúrslitum, Haukar gegn Val og Njarðvík gegn grönnum sínum úr Keflavík.
Ein stór breyting var á leikmannahópi Hauka fyrir leik kvöldsins, en Sigrún Björg Ólafsdóttir var komin aftur í liðið úr bandaríska háskólaboltanum. Sigrún Björg hefur síðustu ár leikið fyrir lið Chattanooga Mocs við góðan orðstír, en þar áður hafði hún verið mikilvægur hluti af liði Hauka.

Heimakonur í Haukum voru betri í upphafi leiks og leiddu þær með 10 stigum að fyrsta leikhluta loknum, 27-17. Mest ná Haukar að komast 14 stigum yfir í þessum fyrri hálfleik, en undir loka hans nær Njarðvík að minnka muninn og er hann aðeins 6 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 45-39.
Stigahæstar fyrir Hauka í fyrri hálfleiknum voru Lore Devos og Diamond Battles með 12 stig hvor. Fyrir Njarðvík var Brittany Dinkins stigahæst með 19 stig.
Í upphafi seinni hálfleiksins nær Njarðvík að klóra sig til baka og jafna leikinn í fyrsta skipti síðan á upphafsmínútunni. Haukar eru þó enn körfu á undan fyrir lokaleikhlutann, 67-65. Í þeim fjórða má segja að heimakonur hafi svo verið með góð tök á leiknum. Koma forskoti sínu upp í kringum 10 stig og halda því þar til leikurinn er á enda. Niðurstaðan að lokum 7 stiga sigur Hauka, 86-79.

Atkvæðamnestar í liði Njarðvíkur í kvöld voru Brittany Dinkins með 30 stig, 7 fráköst, 7 stoðsendingar og Paulina Hersler með 28 stig og 3 fráköst.
Fyrir heimakonur var Diamond Battles atkvæðamest með 23 stig, 4 fráköst og 6 stoðsendingar. Henni næst var Lore Devos með 17 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar.
Næsti leikur liðanna er komandi sunnudag 4. maí á heimavelli Njarðvíkur í IceMar höllinni.
Myndasafn (Gunnar Jónatansson)



