Stjörnumenn fengu tækifæri á því í kvöld að tæta upp sópana, senda Grindvíkinga í sumarfrí og tryggja sér sæti í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn. Hjá Grindvíkingum reyndi sem aldrei fyrr á trúna, það hlýtur að vera númer 1, 2 og 3. Trúa Gulir því nægilega mikið að þeir geti snúið 0-2 stöðu við?
Kúlan: ,,Ef þú spyrð mig þá er svarið einfaldlega NEI. Þetta er bara ekki nægilega heilsteypt hjá Gri, NBA-Pargo er að spila sinn síðasta leik á ferlinum og hann verður ekkert spes. 107-92 solid heimasigur!“.
Byrjunarlið
Stjarnan: Ægir, Hilmar, Febres, Orri, Rombley
Grindavík: Pargo, Kristófer Breki, Kane, Óli, Mortensen
Gangur leiksins
Grindvíkingar tóku frumkvæðið í byrjun leiks og leiddu 8-13 um miðjan leikhlutann. Hilmar Smári kom sínum mönnum yfir í fyrsta sinn í leiknum með þristi í stöðunni 17-16 þegar góðar þrjár mínútur voru eftir af fyrsta fjórðung. Stjörnumenn voru öllu sterkari út leikhlutann og leiddu 25-21 eftir einn. Tilfinningin var sú að kvöldið gæti orðið erfitt fyrir gestina, Pargo strax byrjaður að tapa boltum og Ægir ætlaði greinilega að laða upp sópana, setti 8 stig í leikhlutanum.
Bragi Guðmunds kom sterkur inn í annan leikhlutann og gerði lítið úr tilfinningu undirritaðs. Gestirnir voru fljótir að jafna og Baldur tók leikhlé í stöðunni 27-27. Pargo lét Kúluna svo heyra það í framhaldinu, setti snögg 5 stig fyrir Grindvíkinga og þeir leiddu 33-40 um miðjan leikhlutann. Mest varð forystan 9 stig, 33-42, smá púði að myndast fyrir gestina. Þeir fóru hins vegar frekar illa að ráði sínu næstu mínúturnar, Arnór braut á Hilmari Smára í þriggja stiga skoti og Jóhann Þór gaf gestgjöfunum 1 stig til viðbótar með munnsöfnuði. Að þessum senum loknum stóðu leikar 43-44 og enn um 3 mínútur til leikhlés. Leikurinn fór að mestu fram á vítalínunni út leikhlutann en Arnór Tristan bætti það sem og villuna á undan upp og gott betur með svaaaðalegri flugtroðslu í blálok leikhlutans! Þvílík tilþrif. Grindjánar leiddu í hálfleik 51-57, smá sófaskrautspúði sem ekkert má nota. Undirritaður vill benda Kúlunni á að Pargo var með 16 stig í hálfleik. Ægir og Hilmar 14 fyrir Stjörnupilta.
Gestirnir héldu í smá forystu fyrstu mínútur þriðja leikhluta. Um miðjan leikhlutann fóru fram svakalegar senur, Pargo átti gullsendingu út úr tvöföldun á póstinum á Breka í horninu sem sökkti einum af fjórum afar dýrmætum þristum sínum í leiknum. Þremur sekúndum síðar var Óli fyrirliði Ólafsson búinn að fiska ruðningsvillu á Rombley sem var hans fimmta í leiknum! Þá var staðan 59-71 og skrautpúðinn að farinn að verða nothæfur. Nokkru síðar smellti Óli í þrist og fyrir lokaátökin var púðinn orðinn heilsukoddi, staðan 71-88.
Svona miðað við síðasta leik var alveg hægt að sjá Grindvíkinga klúðra þessu á einhvern hátt í lokaleikhlutanum. Heimamenn settu fyrstu 5 stigin, 76-88, aðeins 12 stiga munur og enn 8 mínútur eftir. Það var allt kengbilað í húsinu og barist um hvern millimetra inn á vellinum. Þegar 5 mínútur lifði leiks héngu gestirnir enn 11 yfir í stöðunni 85-96. Skömmu síðar klúðraði Kane troðslu sem var sennilega hugsuð til að klára þennan leik og Ægir stráði salti í sárið með þristi í næstu sókn, aðeins 8 stiga munur, 88-96 og enn 4 mínútur eftir. Breki svaraði hins vegar Ægi í sömu mynt, setti muninn aftur upp í 12 stig og aðeins rúmar 3 mínútur eftir. Það er kannski ekki rétt að segja að þristurinn hafi endanlega gert út um leikinn en heimamenn náðu hins vegar ekki að brúa þetta bil eða hleypa neinni spennu af alvöru í leikinn. Reyndar var spennan alveg nægileg fyrir og eftir smá slagsmál í stúkunni tók leikurinn enda – lokatölur 91-105 í svakalegum hitaleik! Grindvíkingar minnka muninn í 2-1 og þeir róa enn á ný á föstudag!
Menn leiksins
Ólafur Ólafsson var frábær í kvöld, skoraði 25 stig og tók 8 fráköst fyrir gestina. Hann spilaði á við tvo varnarlega á löngum köflum, þvílíkur kappi sem þessi maður er! Mortensen og Pargo áttu líka flottan leik, Mortensen með 15 stig og 12 fráköst, Pargo 19 stig, 9 fráköst og 7 stoðsendingar svo við verðum að fyrirgefa honum 7 tapaða bolta.
Hilmar Smári var atkvæðamestur heimamanna með 27 stig. Ægir var næstur með 22 stig og gaf 6 stoðsendingar. Hann var með mestan mínus í +- tölfræðinni eða -16 sem er gott dæmi um hvað þessi +- tölfræði getur verið mikið bull.
Kjarninn
Kúlan spáði næstum því rétt um úrslit í tölum en hefur greinilega bara ruglast á liðum að þessu sinni. Hún hefur séð fyrir 7 tapaða bolta Pargo en að öðru leyti var hann mjög mikilvægur fyrir Grindvíkinga í kvöld. Bragi og Arnór komu inn af bekknum og skiluðu mikilvægu framlagi fyrir sína menn eins og oftast. Breki setti svo heldur betur þýðingarmikla þrista í þessum leik ofan á frábæran varnarleik. Vel gert hjá Grindavík og við fáum fjórða leik!
Stjörnumenn spiluðu ekkert ömurlega í kvöld þrátt fyrir ósigur. Auðvitað munaði talsvert um það að Rombley fékk sína fimmtu villu um miðjan þriðja leikhlutann og Mortensen og Óli nýttu það t.d. með allnokkrum mikilvægum sóknarfráköstum síðasta korterið í leiknum. Stjörnumenn tóku 21 sóknarfráköst á móti 12 gestanna sem hljómar eins og sigur en þriggja stiga skotnýtingin var aftur á móti alveg afleit eða í 23%, líkt og í síðasta leik. Stjörnumenn þurfa að muna að þeir leiða einvígið enn 2-1 og þurfa bara einn sigur í viðbót. Kemur hann á föstudagskvöldið?
Myndasafn (væntanlegt)



