spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karla9 leikja sigurgöngu Þórs lauk á Jakanum

9 leikja sigurgöngu Þórs lauk á Jakanum

Topplið Þórs Akureyri mætti Vestra á Jakanum á Ísafirði í 1. deild karla í gærkvöldi. Fyrir leikinn var Þór efst í deildinni eftir að hafa unnið 12 af 13 fyrstu leikjum sínum á meðan Vestri var í sjötta sæti eftir að hafa tapað 4 af síðustu 5 leikjum sínum. Liðin mættust síðast á Akureyri í nóvember þar sem Þór fór með öruggan 20 stiga sigur af hólmi.

Liðsmenn Vestra léku með sorgarbönd til minningar um Stefán Dan Óskarsson sem borinn verður til grafar á Ísafirði í dag.

Gangur leiksins
Það leit allt út fyrir að úrslitin yrðu eftir bókinni í upphafi leiks. Þórsarar hittu úr 10 fyrstu skotunum sínum og leiddu með 11 stigum, 9-20, eftir einungis 5 mínútur. Júlíus Orri Ágústsson hjá Þór fór mikinn á þessum kafla en hann hann skoraði 11 af fyrstu 15 stigum Þórs.

Eins og flestir þekkja er körfuboltinn leikur áhlaupa og enginn munur er nógu stór. Í öðrum leikhluta fór Vestri að höggva á forustu Þórs og þegar rúmlega fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik náðu heimamenn muninum í tvö stig, 31-33, með körfu frá Adami Smára Ólafssyni. Sá munur hélst út leikhlutann og var staðan í hálfleik 39-41 fyrir gestina að norðan.

Þórsarar byrjuðu seinni hálfleikinn af sama krafti og þann fyrri og voru komnir 10 stigum yfir, 45-55, eftir einungis 4 mínútur. Vestri komst þó aftur inn í leikinn með því að skora 13 af næstu 17 stigum leiksins en góður endasprettur Þórsara tryggði þeim 8 stiga forustu, 63-71, í lok leikhlutans.

Heimamenn komu inn í fjórða leikhluta með látum og skoruðu 12 fyrstu stig hans, en þar af skoraði Hilmir Hallgrímsson 8 stig. Mest komst Vestri 6 stigum yfir, 79-73, þegar rúmlega þrjár mínútur voru eftir. Þegar 37 sekúndur eru eftir minnkar Júlíus Orri muninn niður í 2 stig og Ingvi Rafn Ingvarsson stelur svo boltanum í kjölfarið af Nebojsa Knezevic undir körfunni og jafnar leikinn. Eftir að Vestri klikkar á skoti með 8 sekúndur eftir þá geysist Ingvar Rafn fram í hraðaupphlaup en erfitt skot hans fyrir framan körfunni á móti Hilmir geigar.

Juri Gunjina og Ingvi Rafn Ingvarsson áttu báðir mikilvæga stolna bolta á lokasekúndum fjórða leikhluta og framlengingarinnar. Mynd: Anna Ingimars.

Vestri skoraði fyrstu 4 stigin í framlengingunni en Þór hélt sér inni í leiknum með vítum frá Larry Thomas og Ingvari. Þegar 23 sekúndur eru eftir, og Vestri 87-85 yfir, þá eru dæmdar 24 sekúndur á Vestra. Þór fær innkast á sínum varnarhelmingi en, þrátt fyrir að Vestri pressi innkastið stíft, kemur engin af sóknarhelmingi Þórs til að hjálpa Júlíusi og Ingvari við innkastið sem endar með að Júlíus þarf að taka erfiða sendingu áður en hann fær dæmdar á sig 5 sekúndur. Juri Gunjina kemst inn í sendinguna og stelur boltanum. Vestramenn láta boltann svo ganga hratt á milli sín þannig að Þór nær ekki að brjóta fyrr en þegar 6 sekúndur eru eftir af leiknum. Juri fer á línuna og setur bæði vítin og tryggir Vestra 89-85 sigur.

Tölfræðin
Þór klikkaði á 32 af 40 þriggja stiga skotum sínum í leiknum og munar um minna. Vestri var þó ekki mikið betri þar en þeir settu 5 af 28 skotum sínum fyrir utan línuna. Heimamenn voru þó heitir undir körfunni en þeir settu 65% af tveggja stiga skotum sínum á móti 58% hjá Þór.

Hilmir Hallgrímsson átti einn sinn besta leik í vetur. Mynd: Anna Ingimars

Hetja leiksins
Hinn 16 ára gamli bakvörður Vestra, Hilmir Hallgrímsson, steig vel upp í fjórða leikhluta en þá skoraði hann 8 af 11 stigum sínum. Um miðja framlenginguna varði hann svo skot framherjans Pálma Geirs Jónssonar undir körfunni sem hefði gefið Þór forustuna. Hilmir var einnig með langbestu +/- skortöluna af öllum leikmönnum í leiknum en Vestri skoraði 17 stigum meira en Þór með hann á vellinum.

Vestfjarðartröllið átti enn eina tröllatvennuna með 21 stigi og 17 fráköstum. Mynd: Anna Ingimars

Helstu stigaskorarar
Jure Gunjina átti sinn besta leik síðan hann kom til Vestra frá Breiðablik í desember og skoraði 24 stig ásamt því að taka 12 fráköst. Nebojsa Knezevic kom næstur með 22 stig og Vestfjarðartröllið Nemanja Knezevic var með 21 stig og 17 fráköst. Hilmir Hallgrímsson skoraði eins og fyrr segir 11 stig og Adam Smári Ólafsson kom næstur með 7 stig.

Hjá Þór var Júlíus Orri Ágústsson frábær en hann skoraði 20 stig en Ingvi Rafn Ingvarsson kom næstur með 18 stig og 10 fráköst. Larry Thomas skoraði 17 stig og gaf 6 stoðsendingar, Pálmi Geir Jónsson var með 12 stig og Damir Mijic skoraði 11 stig.

Yngvi: “Vörnin var það sem skóp þennan sigur”

Lárus: “Mér fannst við einhvern veginn aldrei vera að fara í þennan leik til að sigra”

Myndasafn
Tölfræði leiksins

Fréttir
- Auglýsing -