spot_img
HomeFréttir9. flokkur drengja í Schenkerhöllinni

9. flokkur drengja í Schenkerhöllinni

Um helgina fór fram þriðja fjölliðamótið í a-riðli í 9. flokki drengja í Hafnarfirði. Eftir fyrstu tvö mótin var KR með 8 sigra, Haukar með 5 sigra og 3 töp, UMFN með 3 sigra og 5 töp, Fjölnir 2 sigra og 2 töp og Keflavík með 1 sigur og 3 töp. Þriðja fjölliðamótið er alltaf mikið baráttumót þar sem liðið sem verður neðst fellur í b-riðil og á þar með ekki möguleika á því að komast í fjögurra liða úrslitin í vor.
 
 
Það var gaman að fylgjast með mótinu og margt sem gladdi augað. T.d. sáust nokkrar troðslur, mörg glæsileg þriggja stiga skot, vel útfærður sóknarleikur (Princeton sókn, Tex Winter þríhyrningur og Flex), reynslumiklir þjálfarar, margir góðir bakverðir og efnilegir hávaxnir leikmenn. Fróðir menn segja að 2000-árgangurinn sé efnilegur og væntanlega verður U15-landsliðið vel mannað í sumar.
 
KR var með besta lið mótsins og unnu alla leiki sína örugglega. KR sem er á leið á Scania-Cup um páskana hefur leikið mjög vel í vetur og eru taplausir í Íslandsmótinu. KR tapaði fyrir Stjörnunni í mjög skemmtilegum leik í undanúrslitum bikarsins fyrir stuttu. Sá sem þetta skrifar er viss um að 9. flokkur KR væri tilbúinn að skipta á því tapi og nokkrum sigrum í fjölliðamótum vetrarins. Haukar áttu einnig gott mót og léku vel í þremur sigurleikjum sínum. Haukar náðu ekki að stríða KR að þessu sinni og töpuðu með 19 stiga mun, en Haukar hvíldu lykilleikmenn mikið í seinni hálfleik, væntanlega til að eiga þá góða í tvo mikilvæga bikarúrslitaleiki um næstu helgi. Keflavík lenti í þriðja sæti á þessu móti með tvo góða sigra og jafnmörg slæm töp. Liðið býr yfir miklum hæfileikum en slök framkvæmd á grunnatriðum í vörn og sókn halda liðinu niðri. Eftir að Njarðvík tapaði fyrir Keflavík í framlengdum háspennuleik var ljóst að leikur þeirra við Fjölni yrði hreinn úrslitaleikur um fall í b-riðil. Fallleikurinn var hörkuleikur. UMFN lék vel til að byrja með og komust 10 stig yfir gegn Fjölni, en fóru illa að ráði sínu á síðustu mínútum leiksins og töpuðu með 6 stigum. Það var því hlutskipti Njarðvíkur að falla en Fjölnir náði fjórða sæti. Framkvæmd mótsins var góð hjá Haukum. Þór Akureyri náði að sigra b-riðilinn sem leikinn var í Stykkishólmi og leika því í a-riðli í síðasta fjölliðamótinu. Úrslit leikja í a-riðlinum voru eftirfarandi:
 
Haukar-Keflavík 56-41
KR-UMFN 68-54
Fjölnir-Keflavík 48-56
Haukar-UMFN 51-40
KR-Fjölnir 61-43
Njarðvík- Keflavík 76-79 (eftir framlengingu)
Haukar-Fjölnir 53-39
KR-Keflavík 81-42
Fjölnir-Njarðvík 56-50
KR-Haukar 63-44
 
Myndin er af hinum efnilega Hilmari Smára Henningssyni.
 
  
Fréttir
- Auglýsing -