spot_img
HomeFréttir9 fingur á titilinn hjá Snæfell

9 fingur á titilinn hjá Snæfell

Snæfell fóru í kvöld langt með það að klára Dominosdeild kvenna þegar þær sigruðu Keflavík í TM-höllinni með 85 stigum gegn 76 stigum heimastúlkna. Snæfell leiddi í hálfleik með 10 stigum og náðu mest 19 stiga forystu í leiknum. 

Snæfell komu töluvert tilbúnari til leiks í kvöld heldur en Keflavík og fyrstu mínútur leiksins báru þess merki svo greinilega.  Á meðan boltinn gekk (kvenn)manna á milli í sókn gestanna þá voru Keflavík að hnoðast þetta hvað eftir annað í sínum leik og náðu  með herkjum að setja stig. Þetta átti svo eftir að verða saga þeirra þetta kvöldið.  Keflavíkurliðið hlóð svo í pressuvörn á Snæfell megnið af fyrri hálfleik. Þessa pressuvörn brutu gestirnir niður hvað eftir annað án mikillar fyrirhafnar og skoruðu í kjölfarið auðveld stig. 

Sem fyrr segir leiddu gestirnir með 10 stigum í hálfleik en ræða Sigurðar Ingimundarsonar þjálfara Keflavíkur hlýtur að hafa verið hvöss í hálfleik því hægt og bítandi hófu Keflavík að naga niður forskot Snæfell í þriðja leikhluta og um miðbik þess fjórða komust þær loksins yfir eftir að Carmen Tyson Thomas tók sóknarleik liðsins á sínar herðar.  En agaður og skipulagður leikur Snæfell varð hinsvegar ofaná og með Hildi Sigurðardóttir drekkhlaðna af reynslu bakvið stýrið silgdu Snæfell sigrinum verðskuldað í land.  Snæfell hafa því komið sér í afar þægilega stöðu þar sem þær leiða 2:0 í einvíginu og þurfa aðeins einn sigur í viðbót til að klára en næsti leikur er á mánudag í Stykkishólmi. 

Þetta Keflavíkurlið, ef lið er hægt að kalla eftir slíka frammistöðu getað lítið annað en litið í sinn eigin barm. Sóknarleikur liðsins í besta falli tilviljanakenndur og með öllu fyrirsjáanlegur.  Carmen Tyson Thomas á tímum leit út fyrir að vera eini leikmaður liðsins og hún skoraði svo sannarlega 43 stig en til þess þurfti hún 35 skot.  Sjaldnast var litið inní teig þar sem þær Keflvísku búa yfir reynslu miklum landsliðsmanni í Bryndísi Guðmundsdóttir.  Á tímum var þetta gersamlega stjórnlaust með öllu og í raun engin tilbúin að gera neitt fyrir liðsfélagann.  Eins vel og undirritaður hefur séð þetta lið spila í vetur þá var botninum í leik þeirra náð og orðaðið það einn nokkuð vel eftir leik þegar hann sagði að þessar stúlkur væru fínar í golfi því þar þarf ekki að senda boltann. 

En verkefnið sem nú stendur fyrir framan Keflavík er að vinna þrjá leiki í röð gegn ríkjandi meisturum Snæfell og þá tvo leiki í Stykkishólmi.  Keflavík hefur vissulega lagt þetta Snæfellslið í vetur og það nokkuð sannfærandi, en leikur liðsins þarf að taka stökkbreytingu ef þetta verkefni á að takast og þær þurfa að berja sér í brjóst og hafa trú á því sem til þarf. 

Það er hinsvegar unun að fylgjast með þessu Snæfellsliði og Ingi Þór Steinþórsson á hrós skilið fyrir hversu vel honum hefur tekist upp að koma þessu liði í úrslit. Auðvitað skemmir ekkert að hafa Kristen McCarthy, eina af þeim flinkari sem hingað hafa komið en það sem stendur hinsvegar uppúr er að liðið spilar sem ein heild og aldrei er langt í brosið hjá leikmönnum og þegar illa gengur mæta liðsfélagarnir í pepp á hvorn annan.   

Undirritaður á erfitt með að sjá Keflavík moka sig uppúr þessari holu en þó skal aldrei afskrifa neinn því eins og sagt er, "miði er möguleiki"

Tölfræði leiksins

Myndasafn #1 (SBS)

Myndasafn #2

 

Fréttir
- Auglýsing -