spot_img
HomeFréttir8. flokkur ÍR lenti í 2.sæti í Gautaborg

8. flokkur ÍR lenti í 2.sæti í Gautaborg

Drengirnir í 8.flokki ÍR fóru góða ferð til Gautaborgar dagana 8. til 12. maí síðastliðinn og lentu í 2. sæti í Gautaborgarmótinu í körfubolta, Göteborg Basketball Festival. Mótið er stærsta ungmennamót í körfubolta í Evrópu. Alls voru 38 lið skráð til leiks í 8.flokki karla, frá Skandinavíu og víðar.
 
Spilað var í 9 riðlum og sigraði ÍR sinn riðil með yfirburðum. Þá tók við 16 liða útsláttarkeppni og vann ÍR þar öruggan sigur. Næstu leikur voru gegn sterkum liðum og mætti ÍR IK EOS í 8-liða úrslitum. ÍR hafði 10 stiga sigur að lokum, 40-30, eftir að hafa leitt nær allan leikinn.
 
Daginn eftir, á sunnudag, lék ÍR í undanúrslitunum gegn Norrköping Dolphins. Eftir að hafa verið einu stigi undir í hálfleik hafðist 12 stiga sigur að lokum, 38-26 fyrir ÍR. Sigurinn virtist koma leikmönnum sænska liðsins nokkuð á óvart, sem sýndu það með óíþróttamannslegri háttsemi á síðustu andartökum leiksins.
 
Í úrslitunum mættust ÍR og Mölndal Basket. Sænska liðið var firnasterkt og hafði meðal annars einn turn innanborðs sem lokaði flestum leiðum undir körfunni. Mölndal var 7 stigum yfir í hálfleik, 19-12, og vann að lokum með 36 stigum gegn 19.
 
Þrátt fyrir tap í úrslitaleik stóðu drengirnir í ÍR sig afburðavel og gátu ekki spilað fleiri leiki á mótinu, eða 3 í riðli og 4 í úrslitakeppninni. Háttsemi ÍR-inga var til fyrirmyndar bæði innan vallar sem utan og er bikarinn sem fékkst fyrir 2. sæti mótsins til marks um góðan endi á flottu tímabili 8. flokks ÍR.
 
Mynd/ Frá verðlaunaafhendingu í Liseberg-íþróttahöllinni í Gautaborg. Menn voru að vonum nokkuð svekktir eftir tap í úrslitaleik en árangurinn engu að síður glæsilegur.
  
Fréttir
- Auglýsing -