spot_img
HomeFréttir8. flokkur drengja: Önnur umferð í a-riðli

8. flokkur drengja: Önnur umferð í a-riðli

7:45

{mosimage}

(Agnar að stýra sínum drengjum – sem léku vel síðari daginn) 

Um helgina var leikið í a-riðli í 8. flokki drengja. Hér koma nokkrir punktar um síðustu 6 leiki mótsins. Mótið var jafnt og spennandi. KR og UMFN náðu að sigra í þremur leikjum af fjórum. Höttur og Stjarnan voru með 50% vinningshlutfall. Blikar unnu ekki leik en stóðu sig vel og sýndu að liðið er með marga góða og efnilega leikmenn.

 

 

Í b-riðli sigraði Þór Þorlákshöfn, Keflavík lenti í öðru sæti og Valur, Haukar og Fjölnir voru í harðri baráttu um hin sætin.

Höttur-Njarðvík

Síðasti leikur laugardagsins var á milli Hattar og UMFN. Þeir grænu stjórnuðu þessum leik þrátt fyrir að Hattarmenn hafi aldrei verið langt undan. UMFN var yfir eftir fyrstu lotuna 13-8 og í hálfleik 22-14. Seinni hálfleikur var svipaður. Í lok þriðju lotunnar var staðan 34-23 og leikurinn endaði síðan 51-38 fyrir Njarðvík.

 

Maciej stimplaði sig vel inn í mótið í þessum leik og var með 30 stig. Eysteinn (Hetti) hélt áfram að leika vel og var með 16 stig.

KR-Breiðablik

Fyrsti leikur sunnudagsins byrjaði kl. 9:00. Nú var leikið í DHL-höllinni. Heimamenn mættu vel stemmdir í leikinn og voru yfir eftir fyrstu lotuna 19-9. Í annarri lotunni skellti Snorri þjálfari Blika inn 2-2-1 pressuvörn. KR var búið að undirbúa sig fyrir þessa vörn en réðu ekkert við hana og Blikar náðu að jafna fyrir hálfleik, 21-21. Mikil hraði var í þriðju lotunni og KR hljóp yfir Breiðblik og skoraði 25 stig í lotunni og í lok hennar var staðan 46-33. Fjórða lotan var svipuð og leikurinn endaði með sigri KR, 74-50.

 

Stigahæstu menn KR voru Oddur (20 stig), Hugi (12) og Þorgeir (11). Axel átti góðan leik hjá Breiðbliki og var með 8 stig, Markús var með 8 og Valur með 6. Blikar misnotuðu 34 víti á laugardeginum og klikkuðu úr 11 í þessum leik.

Stjarnan – Höttur

Bæði þessi lið léku vel á laugardeginum. Stjörnumenn léku vel í fyrri hálfleik og virtust stjórna leiknum. Þeir voru yfir 14-6 eftir fyrstu lotuna og staðan í hálfleik var 25-16 fyrir þá. Stjörnumenn byrjuðu þriðju lotuna vel og komust yfir 30-18. Þá kom mjög góður kafli hjá Hetti sem kom þeim aðeins inn í leikinn og í lok lotunnar var Stjarnan yfir 32-27.

 

Stjörnudrengir skoruðu fyrstu þrjú stigin í fjórðu lotunni. Síðan hrundi leikur liðsins niður og Hattarmenn gengu á lagið og skoruðu 15 stig í röð og komust átta stig yfir. Stjörnumenn reyndu allt sem þeir gátu til að komast inn í leikinn á síðustu mín., en Höttur hélt haus og nýttu vítin sín vel og náðu að sigra í mjög spennandi leik 49-43.

 

Dagur (9) og Heiðar (7) skoruðu mest fyrir Stjörnuna. Andrés Hattarmaður sem lék þennan leik veikur var með 15 stig, Einar var með 12 stig og Eysteinn var með 7.

UMFN-Breiðablik

Blikum gekk illa að ráða við Maciej í fyrstu lotunni. Hann skoraði öll stig liðs síns og UMFN var yfir 11-5 eftir fyrstu lotuna. Leikurinn jafnaðst í næstu lotu og staðan í hálfleik var 14-11 fyrir UMFN. Þriðja lotan var góð hjá báðum liðum. Mikil barátta og góðir tilburðir í vörn og sókn. Í lok hennar var staðan 33-28 fyrir UMFN. Blikar léku nokkuð vel í fyrstu þremur lotunum en leikur þeirra dalaði í síðustu lotunni og Njarðvík sigraði 59-39.

 

Maciej var í miklum ham þessum leik og skoraði 38 stig. Magni átti einnig góðan leik og var með 8 stig. Blikarnir Axel og Valur héldu áfram að leika vel og voru báðir með 8 stig.

Höttur-KR

KR strákarnir mættu tibúnir í leikinn og voru staðráðnir að hleypa Hattarmönnum aldrei inn í hann. Þeir ætluðu að leika hratt, grimmt og stoppa þrjár aðalbyssur Hattar. KR hafði fengið góða hvíld á milli leikja og leiktíma var vel dreift í morgunleiknum. Lið Hattar fékk minni hvíld og morgunleikur þeirra var mjög erfiður.

 

KR var yfir eftir fyrstu lotuna 22-2 og í hálfleik 34-10. Staðan í lok þriðju lotunnar var 50-17 og leikurinn endaði 70-19 fyrir KR.

UMFN-Stjarnan

Stjörnudrengir voru ekki ánægðir með tapið gegn Hetti og ætluðu sér að sigra UMFN og þar með vinna mótið. Stjarnan lék mjög vel í fyrri hálfleik bæði í vörn og sókn og var yfir eftir eina lotu 18-7 og í hálfleik 32-17. Sóknarleikur þeirra var agaður/skipulagður og þeir náðu að halda Maciej vel niðri í vörninni, hann skoraði ekki stig í fyrri hálfleik.

 

Agnar þjálfari náði að kveikja í sínum mönnum í hálfleik og þeir léku mjög góða vörn alla þriðju lotuna. Stjarnan réð ekki við mótlætið og lotan endaði með 28 stigum gegn 1 fyrir UMFN. Staðan í lok lotunnar var 45-33 fyrir UMFN. Maciej skoraði 22 stig í lotunni.

 

Síðasta lotan var jöfn og ágætlega leikin af báðum liðum og endaði leikurinn 57-46 fyrir UMFN. Leikur UMFN var góður í seinni hálfleik í vörn og sókn. Maciej var með 34 stig í leiknum. Stjörnustrákar eru með breiðan hóp og hugrakkan. Til marks um það tóku leikmenn liðsins nokkra ruðninga á Maciej og það þarf hugrekki til þess. Þeir léku vel í þrjár lotur en ein lotan var þeim dýrkeypt.

Mynd: Foreldraráð 7. flokks KR

Fréttir
- Auglýsing -