spot_img
HomeFréttir8. flokkur drengja (1994 og yngri): Úrslit í Hagaskóla ? fyrri dagur

8. flokkur drengja (1994 og yngri): Úrslit í Hagaskóla ? fyrri dagur

9:10

{mosimage}

Valur Orri Valsson skoraði 58 stig í einum leik fyrir Skallagrím 

Fyrri dagurin bauð upp á spennu og skemmtileg atvik. Tvíframlengdan leik, einn leikmaður skoraði 58 stig, óvænt úrslit, skrýtna dómgæslu og svo framvegis. Staðan eftir laugardaginn er svona:

KR 3 leikir                  9 stig
Þór 3 leikir                   7 stig
UMFN 2 leikir            4 stig
Skallagrímur 3 leikir    4 stig
Fjölnir 3 leikir              3 stig
ÍR 2 leikir                    2 stig

Leikir sunnudagsins eru:

9.00 Hagaskóli UMFN – ÍR
10.05 Hagaskóli Skallagrímur – Þór Þorl.
11.10 Hagaskóli KR – ÍR
12.15 Hagaskóli UMFN – Fjölnir
13.20 Hagaskóli ÍR – Þór Þorl.
14.25 Hagaskóli Fjölnir – Skallagrímur
15.30 Hagaskóli UMFN – KR

Það getur margst gerst á sunnudeginum. Ef KR sigrar í sínum leikjum þá eru þeir Íslandsmeistarar. Ef Þór klárar sína leiki og UMFN sigrar KR, þá er Þór Íslandsmeistari. Ef UMFN klárar sína leiki, þá verða þeir Íslandsmeistarar ef þeir vinna KR stórt eða ef Þór misstígur sig.

Hér á eftir kemur stuttur texti um leikina á laugardeginum.

Skallagrímur var yfir á móti ÍR eftir eina lotu, 14-13. Valur Valsson lék fyrstu lotuna fyrir Skallagrím og skoraði 10 stig í henni. Valur hvíldi í næstu lotu og ÍR gekk á lagið og var yfir í hálfleik, 33-18. Skallagrími gekk betur í þriðju lotu og minnkaði muninn í 9 stig, 39-30. Í fjórðu lotu skoraði Valur Valsson 16 stig og í lok lotunnar var staðan jöfn, 48-48.

ÍR hóf framlenginguna af krafti og komst í 54-48, þá fór Valur  í gang og endaði með því að skor 18 stig í framlengingunni, sem endaði 66-66. Í annarri framlengingunni byrjaði Valur á þriggja stiga körfu, en ÍR skoraði síðan tvær körfur og komst í 69-70. Þá skoraði Valur 7 stig í röð, og endaði leikurinn 76-70 fyrir Skallagrími. Valur var stigahæstur með 58 stig. Daníel Capoul skoraði 28 stig fyrir ÍR.

Næsti leikur var á milli KR og Fjölnis. Fjölnismenn hafa verið að taka framförum í vetur undir handleiðslu Ágústs þjálfara. Fjölnir getur stillt upp stóru liði og eru duglegir að frákasta. KR byrjuði betur og komust í 8-0 með fjórum körfum frá Matthíasi, síðan minnkaði Fjölnir muninn í 12-6 og þannig var staðan eftir fyrsta fjórðung. Fjölnismenn unnu næsta leikhluta 8-5 og staðan í leikhléi var 18-15. Matti átti góða þriðja lotu og var með 10 stig og í lok hennar var staðan 33-25 fyrir KR. Róbert og Arthúr Fjölnismenn leiddu lið sitt í góðu áhlaupi og komu sínu liði 1 stigi yfir, 36-35. KR stóðst þessa árás og góðar körfur frá Martini, Darra og Matta tryggðu þeim sigur 41-36.

Scania-Cup fararnir Þór mættu vel stemmdir í leikinn á móti UMFN. Fyrir mótið höfðu nokkrir körfuspekingar spáð UMFN góðu gengi á þessu móti. Emil Þórsari fór fyrir sínum mönnum í fyrstu lotunni og setti 9 stig á meðan hinn magnaði Maciej (1995) skoraði 9 stig. Þór var yfir eftir fyrstu lotuna 17-11. Leikurinn varð jafnari í annarri lotunni og skoruðu þrír leikmenn öll stigin. Elvar og Birgir skoruðu samtals 14 stig í lotunni fyrir UMFN, en Guðmundur 10 fyrir Þór. Í hálfleik leiddu Þór með 2 stigum, 27-25.

Þór jók forskotið í 11 stig með góðri 9-0 syrpu og fyrir lokafjórðunginn var Þór með 9 stiga forskot, 39-30. Erlendur (1995) lék vel í þriðju lotunni fyrir Þór. Þór lék ágætlega í fjórðu lotunni og vann að lokum góðan 12 stiga sigur, 51-39. Þessi stigamunur getur verið gulls ígildi, ef sunnudagurinn þróast á ákveðin veg. Emil var með 16 stig, Guðmundur var með tólf stig og Erlendur 8. Í Njarðvík var Maciej með 15 stig og Birgir 10.

Reykjavíkurslagur ÍR og Fjölnis var í járnum í fyrstu þremur lotunum og höfðu bæði lið sett 25 stig í lok þriðju lotunnar. Í fjórðu lotunni stakk ÍR af og vann 42-29.  Daníel var með 13 stig fyrir ÍR. Þess má geta að ÍR lék ekki upp á aukastig í þessum leik.

Næsti leikur var á milli heimamannna í KR og Þórs. Sigur Þórs hefði sett þá í vænlega stöðu til að tryggja sér titilinn. Þór var yfir eftir fyrstu lotu, 8-4 og í hálfleik 14-9. KR-ingar mættu ákveðnir til leiks í þriðja leikhluta og þeir höfðu 5 stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 24-19. Með 10-3 áhlaupi náðu Þór að komast í 29-27, en KR reyndist sterkari á lokasprettinum og unnu að lokum 34-33. Matthías var með 13 stig hjá KR og Martin 8. Hjá Þór var Emil með 15 stig.

UMFN sigraði Skallagrím 51-31. Davíð var sprækur fyrir Skallagrím og skoraði 12 stig. Maciej var með 16 fyrir UMFN. Valur Valsson lék aðeins fyrstu lotuna fyrir Skallagrím í þessum leik.

Þórsliðið náði að rífa sig upp eftir erfitt tap gegn KR og vinna góðan sigur á Fjölni. Fjölnismenn léku vel í fyrri hálfleik og voru yfir í lok hans, 23-19. Þriðja lotan var jöfn og var jafnt á tölunum, 26,28, 30. Þór átti góðan endasprett og skoraði 7 síðustu stigin og voru yfir 37-32. Það var mikil barningur í fjórðu lotunni. Fjölnir náðu að jafna í tölunni 38 og síðan í 40. Emil sýndi síðan öryggi í blálokin og setti tvö víti niður og Fannar skoraði mikilvæga körfu og um leið tryggði hann Þórssigur. Guðmundur var með 18 stig og Emil var með 13 stig. Róbert var með góðan leik fyrir Fjölni og var með 17 stig.

KR vann vængbrotið lið Skallagríms með 57 stigum gegn 16 í síðasta leiknum á laugardeginum.

Mynd:

Fréttir
- Auglýsing -