ÍR rak í kvöld af sér slyðruorðið þegar liðið skellti Fjölni 107-97 í Iceland Express deild karla og komust Breiðhyltingar því aftur á beinu brautina eftir skell gegn KR í elleftu umferð. Þeir Nemanja Sovic og Robert Jarvis fóru mikinn í Hellinum í kvöld en fyrir leikinn höfðu bæði lið 10 stig í deildinni. Í tveimur deildarleikjum hafa ÍR-ingar sett samtals 216 stig á Fjölnismenn og ljóst að í Reykjavíkurrimmu þessara liða hefur ÍR tak á Grafarvogspiltum.
Arnþór Guðmundsson mætti galvaskur til leiks og sökkti þremur þristum fyrir Fjölni í fyrsta leikhluta og James Bartolotta lét ekki skilja sig útundan og sökkti tveimur fyrir ÍR en staðan jöfn 22-22 eftir fyrstu tíu mínúturnar eftir góðan lokasprett hjá heimamönnum í leikhlutanum.
Rober Jarvis tók á rás í öðrum leikhluta í liði ÍR og jafnaði metin í 31-31 með þriggja stiga körfu eftir fína byrjun gestanna á leikhlutanum. Jón Sverrisson barðist sem fyrr af miklu afli í Fjölnisliðinu en annar leikhluti var jafn og skemmtilegur þar sem liðin skiptust á forystunni. Þorvaldur Hauksson kom með góða baráttu sem fyrr af bekknum hjá ÍR sem leiddu 45-41 í leikhléi.
Robert Jarvis var með 16 stig í hálfleik hjá ÍR en í lið Fjölni var Calvin O´Neal kominn með 14 stig.
Heimamenn í Hellinum komu ákveðnari inn í síðari hálfleikinn og náðu snemma 12 stiga forystu eftir þrist frá Sovic, 65-53. Bartolotta bætti öðrum þrist við strax í næstu sókn ÍR-inga og staðan 68-53 og nokkuð dregið af Fjölnismönnum sem náðu lítilli stemmningu upp í sínum varnarleik í þriðja leikhluta. ÍR leiddi 73-62 að loknum þriðja leikhluta en hér var veislan rétt að hefjast því 69 stig litu dagsins ljós í fjórða og síðasta leikhluta.
Bæði ÍR og Fjölnir létu ekki mikið fara fyrir varnarleiknum í fjórða leikhluta sem fór 34-35 fyrir Fjölni en ÍR hafði stigin með sér á brott í 107-97 sigri. Fjölnismenn klóruðu í bakkann nokkrum sinnum í fjórða leikhluta en ávallt þegar þeir færðust nærri náðu ÍR-ingar að slíta sig frá á nýjan leik.
Ekki að það hafi verið neitt vandaverk að gera betur en í síðustu umferð þá verður óneitanlega að segjast að allt annað útlit var á ÍR í kvöld heldur en í viðureigninni gegn KR á dögunum. Nái varnarleikurinn að smella með jafn hæfileikaríkt sóknarlið verða þeir skeinuhættir þegar nær dregur úrslitakeppninni.
Fjölnismenn að sama skapi sakna Árna Ragnarssonar og vantar að hafa fullan eldmóð í varnarleiknum sínum í heilar 40 mínútur og þar stóð hnífurinn í kúnni.
Heildarskor:
ÍR: Nemanja Sovic 28/5 fráköst, Robert Jarvis 28/5 fráköst/6 stoðsendingar, James Bartolotta 21/6 fráköst, Hjalti Friðriksson 9, Kristinn Jónasson 8/7 fráköst, Eiríkur Önundarson 6, Þorvaldur Hauksson 3/6 fráköst, Ellert Arnarson 2, Húni Húnfjörð 2, Níels Dungal 0, Friðrik Hjálmarsson 0, Bjarni Valgeirsson 0.
Fjölnir: Calvin O’Neal 28/7 stoðsendingar, Nathan Walkup 24/8 fráköst, Arnþór Freyr Guðmundsson 17, Jón Sverrisson 15/9 fráköst, Daði Berg Grétarsson 6, Gunnar Ólafsson 3, Trausti Eiríksson 2/4 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 2/6 fráköst, Gústav Davíðsson 0, Haukur Sverrisson 0, Tómas Daði Bessason 0, Halldór Steingrímsson 0.
Dómarar: Björgvin Rúnarsson, Einar Þór Skarphéðinsson – vel dæmdur leikur.