spot_img
HomeFréttir55% stiga Keflavíkur frá 18 ára eða yngri

55% stiga Keflavíkur frá 18 ára eða yngri

 

Vinni Keflavík í Stykkishólmi í kvöld verður það 16. Íslandsmeistaratitill félagsins. Þann fyrsta unnu þær fyrir 29 árum, árið 1988 en hafa síðan, að meðaltali unnið titilinn oftar heldur en annað hvert ár. Ef valið er ártal af handahófi á þessu tímabili, 1988-2016, þá eru um 52% líkur á að Keflavík hafi verið meistari það árið.

 

Keflavík teflir fram ungu liði þetta tímabilið. Þar sem að Salbjörg Ragna Sævarsdóttir og Ariana Moorer eru elstar, þær þó ekki nema 26 ára. Fæddar árið 1991, eða þremur árum eftir að þessi sigurganga Keflavíkur hófst. Meðalaldur leikmannahóps Keflavíkur aðeins 19 ár, en af þeim sem að spiluðu síðasta leik liðsins er hann ári eldri, eða 20 ár.

 

Reynslan því kannski ekki mikil í liðinu, fyrir utan af þessu og síðasta tímabili í efstu deild, úr bikarkeppni (sem þær unnu) og svo úr yngri flokkum. Tveir leikmenn liðsins, fyrirliðinn Erna Hákonardóttir og Salbjörg Ragna Sævarsdóttir hafa þó unnið titilinn áður. Árið 2012 voru þær í fyrsta og eina meistaraliði Njarðvíkur, en þá var þjálfari Keflavíkur, Sverrir Þór Sverrisson að þjálfa þær þar.

 

Það er þó ekki að sjá á þessu Keflavíkurliði að reynsluleysið í úrslitum sé eitthvað að plaga þær. Í síðasta leik gegn Snæfelli fengu þær 37, eða 55% stiga sinna frá leikmönnum sem eru 18 ára eð yngri og eru nú komnar í þægilega 2-0 forystu í einvíginu. 

 

Enginn skyldi þó afskrifa Snæfell. Meistarar síðustu þriggja ára hafa sýnt það síðustu ár að þar fer eitt besta lið efstu deildar kvenna frá upphafi. Með þriðja titil sínum í fyrra jöfnuðu þær lengstu sigurgöngu liðs í úrvalsdeild frá því að úrslitakeppnin var sett á, en aðeins Keflavík hafði áður unnið þrjá titla í röð áður, árin 2003, 2004 og 2005. Með þeim fjórða, í ár, hefðu þær því brotið það met og því kannski alveg við hæfi að til þess að gera svo þurfi þær að fara í gegnum Keflavík áður.

 

Þriðji leikur Snæfells og Keflavíkur er í Stykkishólmi í kvöld. Bæði er boðið upp á fríar rútuferðir, sem og er leikurinn í beinni útsendingu Stöð 2 Sport.

 

Hérna er farið yfir sögu Íslandsmeistara 

Hérna er meira um úrslitaeinvígið

Fréttir
- Auglýsing -