08:59:56
LeBron James slær ekki slöku við og eftir að hafa verið með þrennu í þremur leikjum í röð gerði hann sér lítið fyrir og gerði 51 stig í sigri gegn botnliði deildarinnar, Sacramento Kings. Sigurinn var þó allt annað en auðveldur þar sem Cleveland þurfti að vinna upp 14 stiga mun til að tryggja sér framlengingu áður en þeir lögðu Kings að velli, en að leik loknum fögnuðu þeir því að þeir höfðu tryggt sér sigur í Miðriðli NBA í fyrsta sinn í 33 ár.
Kevin Martin skoraði 34 stig fyrir Kings, sem hafa tapað öllum leikjum sínum gegn liðum í Austurdeildinni.
Detroit, sem hefur oftar en ekki átt Miðriðilinn skuldlaust undanfarin ár, lagði Toronto að velli, einnig í framlengingu. Sigurinn var viðeigandi kveðja til Bill Davidson, eiganda Pistons, sem lést eftir langvarandi veikindi fyrr um daginn. Toronto eru hins vegar í allt annað en góðum málum þar sem þeir haf nú tapað sjöunda leik sínum í röð.
Rip Hamilton átti enn einn stórleikinn fyrir Pistons sem var án Allens Iverson og Rasheed Wallace, og skoraði 24 stig og gaf 16 stoðsendingar. José Calderon fór fyrir liði Raptors og gerði 20 stig og gaf 11 stoðsendingar. Hann komst með því upp í efsta sæti yfir stoðsendingar í sögu Toronto Raptors.
Þá vann Boston lið Memphis Grizzlies þar sem Leon Powe fór á kostum. Hann fyllir í skarðið fyrir hinn meidda Kevin Garnett og skoraði 30 stig og tók 11 fráköst. Ray Allen bætti við 22 stigum en Rudy Gay var stigahæstur Memphis með 26 stig.
Rajon Rondo sneri aftur eftir að hafa misst af tveimur leikjum vegna ökklameiðsla, en náði sér ekki á strik. Stephon Marbury náði hins vegar að sýna eitthvað, skoraði 9 stig og gaf 5 stoðsendingar, en þetta er í fyrsta sinn sem hann sýnir nokkuð lífsmark frá því í fyrsta leik sínum með Celtics.
Loks má geta þess að Dallas Mavericks töpuðu fyrir Golden State Warriors þrátt fyrir þrennu frá Jason Kidd (21/10/11), þökk sé Monta Ellis og Stephen Jackson sem áttu góða leiki fyrir Warriors.
Hér eru úrslit næturinnar:
Detroit 99
Toronto 95
Chicago 101
Philadelphia 104
Houston 91
Charlotte 86
Orlando 112
Washington 103
Memphis 92
Boston 102
Indiana 87
Atlanta 101
New York 102
Minnesota 94
New Orleans 95
Milwaukee 86
Cleveland 126
Sacramento 123
New Jersey 100
Portland 109
Dallas 110
Golden State 119
ÞJ



