Nú eftir 1. júlí síðastliðinn opnaðist leikmannamarkaður NBA deildarinnar upp á gátt aftur. Launaþak deildarinnar er að hækka og það er eins og gjörsamlega allir hafi misst vitið. Sem dæmi þá fékk Mike Conley, leikmaður Memphis Grizzlies, á dögunum besta samning sem sést hefur í sögu NBA deildarinnar. Mikið af liðum eru ennþá að ræða við mikið af leikmönnum, ekki skrýtið, enda erum við bara á fimmta degi. Hérna eru 5, mögulega, verstu leikmannaskiptin sem orðið hafa síðastliðna daga.
Hérna eru 10 bestu leikmannaflutningar síðustu daga.
Það skal tekið fram að þetta er aðeins annar hluti af seríu sem virðist ætla að verða löng. Einnig er listinn ekki í neinni sérstakri röð.
Harrison Barnes til Dallas Mavericks
23.5 miljónir $ á frjálsri sölu frá Golden State Warriors (fjögurra ára samningur)
Forráðamenn Warriors voru búnir að segja það fyrir úrslitakeppni síðasta tímabils að þeir myndu ekki breyta liðinu ef að þeir næðu í þann stóra. Það sem það þýddi var að þeir myndu þá eyða því sem þeir máttu í að halda Harrison Barnes hjá liðinu. Nú fór svo að liðið náttúrulega vann ekki neitt síðasta vetur. Svo að það var næstum vitað að þeir myndu (gæfist þeim færi) reyna hvað þeir gætu, eins og aðrir, til þess að bæta leikmannhóp sinn. Þar með, ekki semja upp á nýtt við veikasta hlekkinn, Harrison Barnes. Dallas Mavericks voru reiðubúnir að borga honum þá summu sem hann var að falast eftir og verði þeim af því. Þeir eru með leikmann á sem skoraði 12 stig og tók 5 fráköst að meðaltali í leik á hæsta mögulega samning næstu 4 árin.
Eric Gordon til Houston Rockets
13.25 miljónir $ á frjálsri sölu frá New Orleans Pelicans (fjögurra ára samningur)
Eric Gordon er ekki slæmur leikmaður. Með 17 stig, 3 stoðsendingar og 3 fráköst að meðaltali í leik síðan að hann kom inn í deildina árið 2008. Vandamálið liggur hinsvegar í þáttöku hans. Hann hefur síðastliðin 5 tímabil aðeins tekið þátt í 53% leikja síns liðs sökum meiðsla. Peningarnir eru vissulega eitthvað í samræmi við það, en samt, að halda að leikmaðurinn eigi eftir að skila sínu miðað við ferilinn hingað til, hlýtur að teljast óskhyggja.
Dwight Howard til Atlanta Hawks
23.5 miljónir $ á frjálsri sölu frá Houston Rockets (þriggja ára samningur)
Dwight Howard hefur skilið eftir sig sviðna jörð hvar sem hann hefur komið við í NBA deildinni. Bæði Orlando Magic og hið fornfræga lið Los Angeles Lakers virðast ennþá vera að jafna sig eftir viðkomu tröllmannsins mikla. Fyrrum varnarmaður ársins, sem og varð hann í öðru sæti í kjöri um verðmætasta leikmann deildarinna. Það er samt langt síðan. Það er spurning hvort heimabæjarlið hans í Atlanta Hawks haldi að að þeir geti snúið við þróun svarta skýstróksins sem verið hefur í vexti fyrir ofan höfuð hans síðastliðin ár? Við höldum ekki, hann er og gerir alla glataða í kringum sig. Að hugsa sér að Hawks hafi misst Horford til Celtics og þetta sé lausnin.
Timofey Mozgov til Los Angeles Lakers
16 miljónir $ á frjálsri sölu frá Cleveland Cavaliers (fjögurra ára samningur)
Nú vita Luke Walton og forráðamenn Lakers liðsins eitthvað um Mozzy sem við hin vitum ekki. Það bara hlýtur að vera. Vissulega er liðið í ákveðinni uppbyggingu um þessar mundir og kannski er erfitt fyrir þá að fá mann í teiginn fyrir jafn litlar upphæðir og öðrum og betri liðum er að takast, en Timofey Mozgov, á fjögurra ára samning, er það leiðin? Í nýafstaðinni úrslitakeppni skoraði hann 1 stig og tók 2 fráköst að meðaltali í leik. Þetta hreinlega getur ekki verið rétt. Í heildina 64 miljóna $ samningur. Ha?
Rudy Fernandez til Philadelphia 76ers
10 miljónir $ á frjálsri sölu frá Real Madrid (tveggja ára samningur)
Skotbakvörðurinn Rudy Fernandez spilaði 4 ár í NBA deildinni frá 2008 til 2012 og skoraði þá 9 stig að meðaltali í leik. Það eru hinsvegar komin nokkur ár síðan. Síðan þá hefur hann spilað í mun slakari deild (ACB á Spáni) og er orðinn eitthvað eldri. Vissulega er samningurinn ekki langur eða stór, en hefðu forráðamenn 76ers ekki frekar viljað halda í leikmenn eins og Ish Smith (sem gerði þriggja ára, 6 milj. $ á ári samning við Detroit Pistons á dögunum) en að neyðast til að gera samning við leikmann sem er vel kominn á fertugsaldurinn og var ekki einusinni það góður þegar að hann var á besta aldri í NBA deildinni? Eins og með lið Los Angeles Lakers er uppbygging í gangi hjá 76ers (uppbyggingin endalausa) og má því vera að leikmenn vilji hreinlega ekki spila fyrir svona lélegt lið, það er spurning.
Uppfært 06.07.16: Forráðamenn 76ers sem upphaflega voru taldir vera að semja við Fernandez til tveggja ára hafa nú, að er fréttir herma, bakkað út úr samningnum. Hvort sem þeir tóku ráðgjöf karfan.is og lásu það sem hér var ritað eður ei vitum við ekki. Góð er ákvörðunin samt.