spot_img
HomeFréttir5 dagar í Eurobasket - Ljóðskáldið Axel Kárason

5 dagar í Eurobasket – Ljóðskáldið Axel Kárason

Það fer heldur betur að styttast í stóru stundina. Í dag eru einungis 5 dagar í að Ísland hefji leik á lokamóti Eurobasket 2017 og það í annað skiptið í röð. 

 

Þann 31. ágúst klukkan 13:30 á íslenskum tíma stígur Ísland á völlinn gegn sterku liði Grikklands. Það verður fyrsti leikur Íslands af fimm leikjum á átta dögum.

 

Karfan.is mun hita vel upp fram að móti og telja niður dagana til að stytta biðina. Í dag eru einungis vinnuvika í mót eða fimm dagar. Leikmenn landsliðsins gera ýmislegt til að stytta sér stundir milli leikja og æfinga en fyrir síðasta lokamót Eurobasket hafði Axel Kárason leikmaður Tindastóls fengið nóg af kveðskap nokkra þjálfara liðsins og ákvað að sýna þeim hvernig ætti að gera þetta. 

 

„Það voru helst þjálfarar liðsins sem voru að setja saman kveðskap og settu það á Facebook hópinn okkar. Þetta var svo lélegt hjá þeim að ég mátti til með að setja saman eitthvað svona að mínu mati aðeins betra.“ sagði Axel um kveðskapinn í Podcasti Karfan.is sem kemur út í dag. 

 

Ljóðið hans Axels má finna hér að neðan en hann viðurkenndi að nokkur vinna hafi verið í ljóðið í undirbúningnum fyrir síðasta lokamót Eurobasket. 

 

Leggja nú á lífsins öldur,
ljós í brjóstum þeirra skína.
Eru landsins sverð og skjöldur,
sterkir duginn ávallt sýna.

 

Smæstir standa meðal þjóða,
sameinaðir þó halda vörð.
Því tryggð og trú við allt það góða,
tendrar elda um alla jörð.

 

Með vilja og von seglin reisa,
vindar blása strax í nausti.
Einn og allir festar leysa,
á þessu litla fagra hausti.

 

Mót risum eigi bræður blikna,
berjast, gleðjast, njóta nú.
Kappar þessir aldrei kikna,
keikir spyrja, hver ert þú?

Fréttir
- Auglýsing -