spot_img
HomeFréttir47 stórtitlar í vesturbænum

47 stórtitlar í vesturbænum

 
Í gærkvöldi fagnaði KR sínum fertugasta og sjöunda stórtitli í sögu félagsins. Íslands- og bikarmeistarartitlar karla- og kvennaliða KR eru orðnir 47 talsins og KR heldur því áfram að safna í sarpinn sem sigursælasta félag landsins þegar litið er til stórtitla meistaraflokka félagsins. Íslandsmeistaratitillinn í gærkvöldi var sá tólfti í röðinni hjá karlaliði KR og saman hafa karla- og kvennaflokkur félagsins unnið 25 Íslandsmeistaratitla. Aðeins ÍR hefur unnið fleiri Íslandsmeistaratitla í karla- og kvennaflokki eða 26 talsins og þurfa KR-ingar aðeins einn stórtitil í viðbót til að jafna metin við erkifjendurna.
Titill karlaliðs KR í gærkvöldi var eins og áður segir sá tólfti í röðinni hjá félaginu og um þessar mundir er KR í 3. sæti yfir þau lið sem oftast hafa orðið Íslandsmeistarar í efstu deild karla. Aðeins ÍR og Njarðvík hafa oftar unnið titilinn, ÍR 15 sinnum og Njarðvík 13 sinnum.
 
KR varð Íslandsmeistari sjö sinnum áður en úrslitakeppnin hóf göngu sína árið 1984. Fimm sinnum hefur félagið því orðið Íslandsmeistari eftir úrslitakeppni, fyrst tímabilið 1989-1990. Eftir þennan titil kom tíu ára hlé hjá Vesturbæingum sem urðu meistarar leiktíðina 1999-2000. Liðið varð svo meistari 2006-2007 og 2008-2009. Fimmti titillinn í úrslitakeppni kom svo í gærkvöldi en fyrsti titillinn í sögu félagsins kom leiktíðina 1964-1965.
 
Mynd/ [email protected] – Íslandsmeistarar KR 2011
 
Fréttir
- Auglýsing -