spot_img
HomeFréttir4. sæti: ÍS ? IE kvenna

4. sæti: ÍS ? IE kvenna

10:43

{mosimage}
(ÍS hefur bikarmeistaratitil að verja)

Bikarmeistarar ÍS er spáð 4. sæti af spekingum Karfan.is en þær hafa einmitt lent í því sæti í 1. deild kvenna undanfarin 2 tímabil. ÍS hefur átt erfitt uppdráttar á undirbúningstímabilinu þrátt fyrir að þær hafi orðið Reykjarvíkurmeistarar. Þunnskipaður æfingarhópur hefur valdið því að liðið hefur ekki getað æft eins vel og Ívar Ásgrímsson, þjálfari liðsins, hefði viljað.

Aðeins eru 10 leikmenn í æfingarhópnum en liðið hefur misst þær Helgu Þorvaldsdóttur, Hönnu Kjartansdóttur, Signý Hermannsdóttir og Hrafnhildi Kristjánsdóttur sem hafa hætt. Einnig fór Eva María Emilsdóttir í Fjölni og hin frábæra Maria Conlon, sem lék með eftir áramót, hefur ekki komið aftur. Þó nokkur meiðsli hafa verið í herbúðum ÍS og hefur Stella Rún Kristjánsdóttir ekkert æft með þeim fram til þessa.

Þær Jófríður Halldórssdóttir, Tinna Björk Sigmundsdóttir og Cecilia Steinsen gengu til liðs við liðið og munu þær reynast liðinu mikill liðsstyrkur.

Þunnskipaður æfingarhópur mun vera vandamál ÍS í vetur en líklegt þykir að þær muni taka útlending eftir áramót til að styrkja liðið fyrir lokaátökin eins og þær hafa gert undanfarin ár. Þetta gerir það að verkum að ÍS verður að standa sig fram að áramótum ef þær ætla að komast í úrslitakeppnina því það er dýrmætt að tapa mikilvægum stigum þangað til.

Töluverð reynsla er í ÍS liðinu en af núverandi leikmannahópi hafa 7 leikmenn skorað yfir 1.000 stig í 1. deild kvenna og hefur elsti leikmaður deildarinnar, Hafdís Helgadóttir, skorað nálægt 3.000 stigum eða 2.879. Ekki er ólíklegt að hún rjúfi 3.000 stiga múrinn í vetur og leikmenn liðsins hafa spilað samtals 1.385 leiki í 1. deild.

Þessi reynsla sem liðið hefur á eftir að reynast þeim dýrmæt í vetur og ef leikmenn liðsins haldast heilir ættu þær að geta valdið bestu liðum deildarinnar vandræðum á góðum degi.

Leikmannahópurinn:
Berglind Ingvarsdóttir
Cecilia Steinsen
Hafdís Helgadóttir
Helga Jónasdóttir
Jófríður Halldórsdóttir
Kristjana Magnúsdóttir
Lovísa Guðmundsdóttir
Signý Hermannsdóttir
Stella Rún Kristjánsdóttir
Tinna Sigmundsdóttir
Þórunn Bjarnadóttir

Þjálfari: Ívar Ásgrímsson

Til gamans má geta að það er 20 ára aldursmunur á elsta og yngsta leikmanni liðsins en Hafdís er 41 árs og Berglind Ingvarsdóttir er 21 árs.

Karfan.is spáir ÍS 4. sætinu og telur að þær muni komast í úrslitakeppnina. Ef það á að ganga eftir þarf liðið að standa sig fram að áramótum og vinna leikina við H/S og Breiðablik.

Fréttir
- Auglýsing -