spot_img
HomeFréttir30 stig í landbyggðarslag í Hólminum

30 stig í landbyggðarslag í Hólminum

Það var mikið í húfi í Hólminum í kvöld þegar KFÍ mættu í heimsókn í Dominosdeild karla. Gestirnir mættu ekki nema níu til leiks og eru að heyja baráttu um veru sína í úrvalsdeild og heimamenn í Snæfelli með augastað á 8. sætinu hið minnsta og fá að spreyta sig í úrslitakeppninni.
 
 
Fyrri hálfleikur var jafnari en sá síðari. Staðan eftir fyrsta hluta ver 23-19 en KFÍ menn hittu illa þrátt fyrir fín færi og Snæfell bættu í vörnina eftir slaka fyrstu mínutuna á þeim vettvangi. Nonni Mæju reið á vaðið og setti kraft í sóknirnar eftir að þeir fóru að stoppa vel í vörninni og Travis Cohn fylgdi vel með og uppskáru að komast úr 6-6 í 13-6. KFí voru ekki alveg til í að fara í kör og náðu að halda velli með Josh Brown fremstann. Staðan eftir fyrsta hluta var 23-19. Turtildúfurnar Nonni og Travis höfðu skorað 20 af 23 stigum Snæfells og Joshua Brown kominn með 10 stig fyrir Ísfirðinga en átti heldur betur eftir að sína á sér sparihliðarnar í leiknum.
 
Gæðin voru ekki að þvælast fyrir leikmönnum beggja liða þegar líða fór á fyrri hálfleik og slakar sóknir, harka og mikið um leyfðar ýtingar og snertingar voru einkennandi. Þá varð leikurinn einfaldalega leiðinlegur um tíma. Snæfell hafði þó komið sér í bílstjórasætið og tíu stigum yfir 32-22 um miðjan annan hluta. Gestirnir héldu sér í vagninn 11 stigum undir í hálfleik 41-30 en voru að gefa eftir smám saman.
 
Joshua Brown var í stuði, skoraði af áfergju og setti flest stig á töflu KFÍ í seinni háfleik ásamt Mirko Stefáni en aðrir leikmenn voru svona inn og út eða hreinlega ekki með heilt yfir. Josh átti eina stoðsendingu í leiknum og tók 41 skot af 73 hjá liðinu í leiknum, skoraði 42 stig og með 1 af 10 í þristum. Þetta hjálpaði gestunum ekkert á meðan
Snæfellingar spiluðu hörkuvörn með Svein Arnar í formi, tóku góð stopp og hraðar sóknir. Travis setti punktinn yfir góðan sprett Snæfells með troðslu, voru þeir komnir í 16 stiga forskot 59-43. Staðan var 71- 53 eftir þriðja fjórðung og KFÍ máttu þakka Nonna Mæju fyrir tvö stig þegar hann blakaði boltanum ofan í þegar henn reyndi við frákast.
 
Snæfellingar héldu bara áfram að bæta á forskotið og voru komnir í 30 stiga forystu 94-64 og ætluðu sér geinilega að klára leikinn af alvöru þrátt fyrir kæruleysi í einstaka tilvikum. Stefán Karel tróð með tilþrifum en fékk dæmt á sig skref en svaraði því með að troða bara aftur og yngri kynslóðin sýndu að þeir eru hörkutöffarar sem spiluðu góða vörn og stálu boltum sem gaf Snæfelli 30 stiga sigur 106-76. Eins getið var í upphafi eru baráttan um fall og sæti í úrslitakeppninni gríðalega hörð þessa síðustu leiki.
 
Hjá Snæfelli var framlagsdreifingin töluvert meiri sem skóp þennan sigur en mikið vantaði upp á framlag fleirri leikmanna hjá KFÍ til að eitthvað ætti að gerast í leiknum þegar á hann seig, þeir eiga þó enn von að vera áfram í deildinni og verða að vinna báða leikina sem eftir eru á meðan Skallagrímur þarf að tapa báðum sínum þar sem þeir hafa tvö stig innbyrðis í plús á Ísfirðinga ef liðin verða jöfn að stigum.
 
Snæfell: Travis Cohn III 30/6 frák/8 stoðs. Nonni Mæju 18/9 frák. Stefán Karel 14/6 frák. Sigurður Þorvaldsson 11/6 frák. Sveinn Arnar 8. Pálmi Freyr 7. Finnur Atli 7. Snjólfur Björnsson 7. Kristján Pétur 4. Þorbergur Helgi 0. Viktor Marínó 0.
 
KFÍ: Joshua Brown 42/9 frák. Mirko Stefán 15/8 frák. Guðmundur Jóhann 5. Jóhann Jakob 5. Óskar Kristjánsson 3. Valur Sigurðsson 2. Ágúst Angantýsson 2/4 frák. Jón Hrafn 2. Hraunar Karl 0.
 
Símon B. Hjaltalín.

Mynd/ Travis Cohn smellti 30 punktum á KFÍ – Sumarliði Ásgeirsson

 
Fréttir
- Auglýsing -