Sveinbjörn Claessen spilaði sinn 200. leik fyrir ÍR nú í vikunni þegar liðið mætti Snæfell í Stykkishólmi. Ekki skemmdi fyrir veislunni að sigur vannst í leiknum þar sem Sveinbjörn setti 14 stig í leiknum og tók 10 fráköst í tilefni dagsins. "Mættum vel undirbúnir í leikinn eftir góða æfingaviku. Vissum nákvæmlega við hverju var að búast af Snæfellsliðinu og hvernig bregðast ætti við þeirra leik, bæði sóknarlega og varnarlega. Héldum skipulagi, spiluðum agaðan körfubolta af mikilli ákefð og höfðum gaman af. Uppskrift sem er vænleg til árangurs. " sagði Sveinbjörn um leikinn.
En hvað þarf til að ná slíkum árangri að spila 200 leiki fyrir félag sitt?
"Það er vissulega áfangi að spila 200 leiki fyrir félagið sitt og ég er mjög stoltur af því að hafa náð að gera það. Ég hef í sjálfu sér aldrei leitt hugann að því að hvað þarf til að gera slíkt. Ætli lykillinn sé ekki að æfa vel, borða hollt, hugsa vel um sig og njóta ferðalagsins? Ungir leikmenn ættu síðan að hafa ríkt í huga hversu mikilvægt það er að stunda fyrirbyggjandi styrktaræfingar til að forðast meiðsli eins og kostur er. Það kemur í veg fyrir óþarfa meiðsli og lengir ferilinn alveg örugglega. Sjálfur hefði ég vafalaust gert ýmislegt öðruvísi varðandi þetta hefði maður haft þekkinguna þegar ég var yngri."
Sveinbjörn hefur marga fjöruna sopið með liði ÍR, bæði súrt og sætt. " Það er að sjálfsögðu bikarúrslitin 2007 sem stendur uppúr þegar við ÍR-ingar fögnuðum sigri. Það var gaman og ríflega það. Frábært lið og enn betri þjálfari. Einkum þrír liðsfélagar sem standa uppúr. Eiríkur Önundarson er langbesti leikmaður sem ég hef spilað með. Afburðamaður á öllum sviðum, bæði innan og utan vallar. Ómar Örn Sævarsson er sá leikmaður sem ég hefði viljað hafa lengur í liðinu. Hann er beinlínis skilgreiningin á liðsmanni. Ósérhlífinn og hugsar ávallt fyrst um liðið. Mikil eftirsjá í honum. Sá þriðji er Steinar Arason. Baneitraður og ótrúlega vanmetinn leikmaður. Aðdáendaklúbbur hans lifir enn góðu lífi þar sem Tómas Agnarsson Vesturbæingur ræður ríkjum. Fleiri eiga skilið að komast á blað en það yrði of langt mál að telja þá upp. Þó verður ekki hjá því komist að minnast á Trausta Stefánsson, Íslandsmeistara í hlaupum. Hann er karakter og góður í hóp." sagði Sveinbjörn og bætti við að erlendu leikmennirnir væru einnig nokkrir sem standa uppúr.
"Kanarnir eru fjölmargir og mætti efalaust tína nokkra til. Nate Brown, Kelly Beidler og Nigel Moore þeir eftirminnilegustu. Skiluðu miklu til félagsins á allan hátt. Í þessari umræðu má heldur ekki gleyma þjálfurunum. Haft marga góða þjálfara en einn sem stendur uppúr; Jón Arnar Ingvarsson. Forréttindi að hafa notið leiðsagnar hans. "