spot_img
HomeFréttir20 stiga sigur hjá Val í Röstinni

20 stiga sigur hjá Val í Röstinni

08:48
{mosimage}

(Signý Hermannsdóttir lék Girndvíkinga grátt í gær)

Valur gerði góða ferð í Röstina í gærkvöldi þegar Hlíðarendakonur höfðu 59-79 útisigur á Grindavík í síðustu umferð Iceland Express deildar kvenna. Valskonur leika gegn Hamri í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en Grindavík mætir KR. Melissa Mitidiero var stigahæst í liði Vals í gærkvöldi með 29 stig en Signý Hermannsdóttir sýndi enn eina ferðina af hverju hún er landsliðsmiðherji og skoraði 28 stig, tók 17 fráköst og varði 6 skot. Hjá Grindavík var Lilja Sigmarsdóttir stigahæst með 15 stig.

Grindvíkingar leiddu í upphafi leiks 9-4 en gestirnir gerðu þá næstu 11 stig í röð og staðan orðin 9-15. Næstu átta stig komu frá Grindavík sem leiddu 17-15 í sveiflukenndum upphafsleikhluta.

Valskonur náðu snemma yfirhöndinni í 2. leikhluta og komust í 19-25 en Grindvíkingar minnkuðu muninn í 25-27. Valur reyndist þó sterkari á lokaspretti fyrri hálfleiks og leiddi 31-38 í hálfleik.

Skotin vildu lítið rata rétta leið hjá Grindvíkingum í gær og það nýttu gestirnir sér og lögðu grunninn að góðum sigri í þriðja leikhluta. Staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann var 44-58 fyrir Val og Lilja Sigmarsdóttir sú eina með mælanlegu lífsmarki í liði heimamanna.

Eftirleikur Valskvenna var auðveldur og unnu þær verðskuldaðan 59-79 sigur í Röstinni. Lilja Sigmarsdóttir var áberandi í liði Grindavíkur en lék þrátt fyrir það rétt rúmar 20 mínútur í leiknum og gerði 15 stig. Petrúnella Skúladóttir kom henni næst með 10 stig. Signý og Melissa voru allt í öllu hjá Val og gerðu saman 57 af 79 stigum Vals í leiknum.

Alma Rut Garðarsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -