Íslenska U18 ára karlaliðið lagði Norðmenn í kvöld og það nokkuð örugglega sem þýðir að öll íslensku liðin á Norðurlandamótinu höfðu sigra gegn Noregi, Ísland 4-0 Noregur. Flottur dagur að kveldi kominn þar sem lokatölur í U18 ára leiknum voru 80-56 Íslandi í vil. Annan leikinn í röð var Dagur Kár Jónsson atkvæðamestur og nú með 22 stig og 10 stoðsendingar. Liðsheildin í kvöld var sterk og þrátt fyrir nokkra kafla sem menn misstu einbeitinguna þá voru Íslendingar jafnan fljótir að slá taktinn á ný og gerðu vel að halda Norðmönnum fjarri.
Norðmenn einir mættu til leiks og komust í 2-6, íslenska liðið hafði sérstakan áhuga á því að grýta frá sér boltanum í upphafi svo Ingi Þór kallaði þá inn í leikhlé eftir tveggja mínútna leik. Upphafsmínúturnar voru þó engu að síður Norðmanna sem komust í 3-12 en þá loks tóku okkar menn við sér. Skotin vildu loks niður og Pétri Rúnari var ekki til setunnar boðið heldur gerði sex stig í röð úr þristum og jafnaði metin 18-18 og þannig stóðu leikar eftir fyrstu tíu mínúturnar. Flott innkoma hjá Pétri og það ekki í fyrsta sinn á mótinu en hann gerði m.a. sigurstigin gegn Eistum í gær sællar minningar.
Varnarleikur íslenska liðsins beygði Norðmenn í öðrum leikhluta sem tókst aðeins að gera 8 stig þessar tíu mínútur. Erlendur Ágúst setti þrist í upphafi annars hluta um leið og skotklukkan rann út og Jón Axel mætti með körfu og villu að auki strax í næstu sókn og þeir norsku hálfpartinn hringsnérust…hvað varð um góða byrjun þeirra?
Tómas Hilmarsson var iðinn við kolann í fráköstunum með átta slík í fyrri hálfleik og kollegi hans í Garðabæ, Dagur Kár Jónsson, kom Íslandi í 35-21 með þriggja stiga körfu. Ákafinn í íslensku vörninni og vaxandi skotnýting kölluðu á að norska vörnin færi út í skytturnar og þá varð róðurinn þungur fyrir þá norsku. Norðmenn eru með mun hávaxnara lið og miðherja upp á 210 sentimetra en íslensku bakverðirnir hlupu þá hringi í kringum turnana og fundu glufurnar. Íslensku piltarnir fundu veiku blettina og þrýstu vel á þá, leiddu 43-26 í hálfleik þar sem Dagur Kár Jónsson var með 18 stig og 4 stoðsendingar og Jón Axel Guðmundsson var með 8 stig.
Í hálfleik setti ungur maður upp skemmtilega sýningu en kappinn sá heitir Jan Baginski en eldri bróðir hans, Maciej Baginski leikur með U18 ára liðinu. Jan setti niður nokkur miðjuskot við góðar undirtektir íslensku stuðningsmannanna í stúkunni.
Upphaf síðari hálfleiks bar nokkurn keim af upphafi leiksins því Norðmenn opnuðu síðari hálfleik með 2-9 hvell. Ingi Þór reif sína menn á bekkinn eftir þrjár mínútur og endurforritaði hugbúnaðinn þeirra. Íslendingar komu grimmir út úr leikhléinu og Maciej Baginski skellti niður tveimur þristum í röð og breytti stöðunni í 50-35. Norðmenn opnuðu þriðja leikhluta 2-9 en Ísland lokaði leikhlutanum 14-2 og leiddu því 59-37 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.
Í fjórða leikhluta gerðust Íslendingar enn eina ferðina sekir um bragðdaufa byrjun og Norðmenn undu sér í 5-13 kafla en eins og við manninn mælt þá komst skriður á nýjan leik í okkar menn. Íslendingar höfðu lagt góðan grunn að sigri eftir fyrstu þrjá leikhlutana svo sigurinn var aldrei í hættu í þeim fjórða og síðasta og lokatölur urðu því 80-56 eins og áður greinir.
Dagur Kár Jónsson var með 22 stig og 10 stoðsendingar og Maciej Baginski bætti við 15 stigum, Jón Axel Guðmundsson gerði 13 stig og þá var Tómas Hilmarsson með 3 stig og 10 fráköst og við leggjum til að Pétur Rúnar Birgisson sækji um einkarétt á slagorðinu: „Traustur af tréverkinu“ – sem hann svo sannarlega var annan leikinn í röð og nú með 9 stig og 3 fráköst. Þá brosti þjálfarinn sínu breiðasta því hann er 41 árs í dag og hans menn færðu honum því myndarlega afmælisgjöf með þessum stóra sigri á Norðmönnum.
Mynd með frétt/ Heiða: Jón Axel Guðmundsson sækir að Norðmönnum í leiknum í kvöld.
Viðtal við Inga Þór þjálfara U18 ára liðsins en hann fékk m.a. forláta afmælissöng í leikslok:



