spot_img
HomeFréttir16 ára liðið leikur til úrslita: Danir engin fyrirstaða

16 ára liðið leikur til úrslita: Danir engin fyrirstaða

 
Á morgun mun Ingi Þór Steinþórsson stýra U16 ára drengjalandsliði Íslands í úrslitaleik Norðurlandamótsins en 16 ára strákarnir voru rétt í þessu að skella frændum sínum Dönum í síðasta leik riðilsins. Á sama tíma mættust Finnar og Svíar þar sem Finnar komu á óvart með öruggum sigri. Því munu Ísland og Finnland leika til úrslita á morgun en ekki Ísland og Svíþjóð eins og flestir reiknuðu með en þessi þrjú lið eru efst og jöfn í riðlinum en Ísland og Finnland standa betur að vígi en Svíar í innbyrðisstigaskori. Lokatölur Íslands og Danmerkur í dag voru 84-69 okkar mönnum í vil.
Þorgeir Blöndal kom Íslandi í 8-6 með þriggja stiga körfu en liðin skiptust á að skora á upphafsmínútunum sem voru fjörugar og opnar. Íslenska liðið var duglegt að keyra á dönsku körfuna og þegar okkar menn fóru að pressa voru Danir einfaldlega skildir eftir. Dagur Kár Jónsson fór mikinn og áttu Danir fá svör við honum.
 
Með sterkum lokasprett í fyrsta leikhluta leiddu Íslendingar 34-17 þar sem Dagur Kár var kominn með 12 stig. Danir náðu aðeins að þétta vörnina framan af öðrum leikhluta en Íslendingar voru í bílstjórasætinu. Maciej Baginski fékk snemma í öðrum hluta sína þriðju villu og hélt á tréverkið en það kom ekki að sök og Ísland leiddi 49-25 í hálfleik.
 
Dagur Kár Jónsson var með 16 stig, 5 stoðsendingar og 2 fráköst í hálfleik og næstur var Oddur Rúnar Kristjánsson með 8 stig og 2 fráköst.
 
Yfirburðir Íslands héldu áfram í síðari hálfleik og með 11-0 byrjun gerði íslenska liðið endanlega út um leikinn. Þorgeir Blöndal átti fínar rispur með glæsilega nýtingu enda velur kappinn skotin sín af kostgæfni. Íslenski hópurinn var baráttuglaður og líflegur og leiddu 69-40 að loknum þriðja leikhluta og aldrei spurning hvoru megin sigurinn lenti.
 
Fjórði leikhluti var aldrei spennandi og fengu allir að reyna sig í leiknum með flottum árangri, allir að skila til liðsins og vinna góða vinnu á báðum endum vallarins. Lokatölur 84-69 Íslandi í vil.
 
Dagur Kár Jónsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 23 stig, 5 stoðsendingar og 3 fráköst. Næstir í röðinni voru þeir Oddur Rúnar Kristjánsson og Þorgeir Blöndal báðir með 13 stig. Maciej Baginski lék lítið í dag og kældi á sér vinstri ökklann en náði snemma leiks að lauma inn 5 stigum og 3 fráköstum. Þá var André Kristleifsson með 9 stig og Hugi Hólm gerði 5 stig og tók 5 fráköst.
 
Úrslitaleikur Íslands og Finnlands hefst kl. 11:15 á morgun, lifandi tölfræði á www.basket.se  
 
 
Mynd/ Dagur Kár Jónsson fór fyrir íslenska liðinu í dag.
 
Fréttir
- Auglýsing -