spot_img

#14 Logi

Þakkir Logi!  Það er fáu hægt að bæta við nú ca. 24 tímum eftir að Logi Gunnarsson kláraði langan og farsælan feril sinn á körfuknattleiks parketinu.  Flest ef ekki öll stærstu nöfn körfubolta fjölskyldunnar hafa keppst við það að mæra Loga á hinum ýmsu miðlum og ekki að ósekju. Sögur og kveðjur úr öllum áttum og hvar sem drepið er niður fæti er Loga lýst sem heiðurs keppnismanni bæði innan sem utan vallar.  Sumar kveðjurnar svo hjartnæmar að maður hélt að eitthvað hræðilegt væri að vera að gerast.  Á vissan hátt fyrir Njarðvikinga er það akkúrat þannig, “Logi Legend” hefur hleypt af sínu síðasta skoti í hinum sögufræga græna búningi Njarðvíkinga.  Til að skauta ansi hratt yfir ferilinn sjálfan þá hóf Logi ungur að árum eins og svo margir að bera vatnið í Njarðvíkurliðið sem þá hlóð inn titlum á færibandi. Starf sem að sonur Loga sér einmitt um í dag. Í samtali eftir sinn síðasta leik í gær kom einmitt í ljós allar þær kynslóðaskiptingar sem Logi hefur séð og tekið þátt í. Nokkuð magnað!  Talandi um kynslóðir og tengsl þá var faðir Loga ansi lunkinn með boltann hér um árið. Magnaðir feðgar með gjörólíkan leikstíl þar sem að Logi var töluvert meira í loftinu á meðan Gunni Þorvarða hélt sig á jörðinni og “pump fake-aði” jafnvel afgreiðsludömurnar niðri í Fíabúð.

Logi fór ungur í menntaskóla til Bandaríkjana eftir að hafa slitið barnskóm sínum í yngriflokkum Njarðvíkur og eyddi þar einum vetri. Áður en hann hélt í víking vestur um haf hafði Logi fengið smjörþefinn af meistarflokki þegar hann var í liðinu sem vann titilinn 1998.   Heim var svo komið og þar sem ákveðin kynslóðaskipti voru á þröskuldinum í Njarðvíkinni. Á þessum tíma er Logi að taka við keflinu og gæfurík ár fylgdu. Titlar 2001 (Í Síki þeirra Tindastólsmanna) og 2002 þegar Keflvíkingum var sópað 3:0. Logi var valin körfuknattleiksmaður ársins árið 2001 aðeins 19 ára gamall.  Bæði árin spilaði Logi stórt hlutverk og skoraði grimmt. Þessi frammistaða varð til þess að Evrópureisa Loga hófst, eða árið 2002 þar sem hann byrjaði feril sinn í Þýskalandi í 2. deildinni með liði ULM. Loga vegnaði vel í Þýskalandi og var þar í 4 ár, seinna með liðum Giessen og Bayreuth. Áður en Logi kom svo heim árið 2008  og spilaði eitt ár með Njarðvík hafði kappinn komið við í Finnlandi (Torpan) og Spáni (Gijón). Evrópureisunni hélt kappinn svo áfram eftir árið með Njarðvík og Frakkland var það í þetta skiptið með liði St Étienne. Viðkoma í Svíþjóð með Solna Vikings eitt tímabil áður en hann endaði Evróputúr sinn í Frakklandi með liði Angers.  Þetta er fyrir 10 árum síðan og Logi orðin tveggja barna faðir. Tími til að koma sér heim og fátt annað kom til greina en að halda í heimahagana í Njarðvík.  Síðustu 10 ár hefur Logi svo eytt með Njarðvíkingum og varð meðal annars bikarmeistari 2021. 

Logi var megnið af ferli sínum í landsliði Íslands og lét til sín taka þar.  Hápunkti með landsliðinu var náð árið 2015 þegar liðið tryggði sig á lokakeppni evrópumótsins í Berlín. Liðið vissulega tapaði öllum leikjum en voru hyltir við heimkomu eins og hetjum. Riðillinn líkast til eins erfiður og hægt var að hafa hann en liðið stóð í kokinu á flestum af þessum risum í Evrópuboltanum. Hæst ber að nefna af mótinu ódauðlegt andartak þegar Logi Gunnarsson setti niður þrist á loka kaflanum gegn Tyrklandi og tryggði leikinn í framlengingu.  

Sem fyrr segir er erfitt fyrir undirritaðan að bæta miklu við það sem nú þegar hefur verið sagt á samfélagsmiðlum frá liðsfélögum, mótherjum, vinum og jafnvel fólki sem þekkir Loga ekki neitt.  Karfan.is heimsótti Loga til Ulm á sínu fyrsta ári í atvinnumennsku og skemmtilegt var að fylgjast með hvernig þessi gutti var fljótur að koma sér fyrir í þessum harða heimi sem atvinnumennskan er.  Aðrar góðar sögur af þessari ferð verða sagðar seinna innan um þrengri hóp. 

Það var svo sannarlega til hæfis að lokastig Loga komu handan þriggjastiga línurnar í gærkvöldi gegn Tindastól. 22 árum áður átti Logi stórleik og lyfti þeim stóra í Síkinu líkast til við mikla gremju heimamanna. Í gærkvöldi voru svo Skagfirðingar tilbúnir að fyrirgefa kappanum og sýndu mikin sóma þegar þeir hylltu hann vel og lengi.

Fróðlegt verður nú að sjá hvað Logi tekur sér næst fyrir hendur í boltanum en yngriflokkar Njarðvíkur koma líkast til með að njóta góðs af reynslu kappans.  

Fréttir
- Auglýsing -