Það fer heldur betur að styttast í stóru stundina. Í dag eru einungis 14 dagar í að Ísland hefji leik á lokamóti Eurobasket 2017 og það í annað skiptið í röð.
Þann 31. ágúst klukkan 13:30 á íslenskum tíma stígur Ísland á völlinn gegn Giannis Antetokounmpo og félögum í Grikklandi. Það verður fyrsti leikur Íslands af fimm leikjum á átta dögum.
Karfan.is mun hita vel upp fram að móti og telja niður dagana til að stytta biðina. Í dag eru 14 dagar í að mótið hefjist og því við hæfi að minnast þess þegar að leikmaður númer 14 í íslenska liðinu Logi Gunnarsson bjó til eitt stærsta augnablik íslenskrar körfuboltasögu.
Síðasti leikur riðils Íslands á Eurobasket 2017 var gegn sterku liði Tyrklands. Eftir að hafa haldið í þá og átt góðan leik voru lokasekúndurnar æsispennandi. Með sjö sekúndur eftir og þrem stigum undir átti Ísland boltann.
Boltinn rataði í hendurnar á Loga Gunnarssyni sem á langt þriggja stiga skot sem ratar ofan í og leikurinn fór í framlengingu. Tyrkland sigraði á endanum 111-102 í framlengunni en þetta augnablik er gríðarlega eftirminnilegt. Stuðningsmenn Íslands tala enn um þetta skot og stemmninguna í kringum það. Vonandi verða fleiri svona augnablik á Eurobasket 2017. En magnað myndband af körfunni má finna hér að neðan: