Körfuboltaáugamenn hafa ærið tilefni til að fagna í dag (þriðjudaginn 21. desember) en það eru 130 ár frá fyrsta körfuboltaleik sögunnar.
James Naismith var upphafsmaður íþróttarinnar fögru er hann var kennari í Springfield Massachusetts. Hann fann upp íþrótt og spilaði stofnleik þann 21 desember árið 1891. Segja má að Naitsmith hafi hitt naglann á höfuðið en þetta er sú íþrótt sem við þekkjum í dag sem körfubolti.
130 years ago today, 18 Springfield MA schoolboys played the 1st game of Basketball under the rules of James Naismith, a teacher at Springfield College. A wonderful sport was born! 🏀🙏🏻❤️ pic.twitter.com/yBJuEKpnJS
— Michael Hirsh (@MichaelHirsh4) December 21, 2021
Í þessum fyrsta leik voru níu leikmenn í hvoru liði. Notast var við fótbolta sem kastað var í ferskjukörfur. James Naismith viðurkenndi fljótlega að hann hafi gert mistök með að hafa ekki nægilega margar reglur í leiknum. Þessi fyrsti leikur var semsagt ansi grófur.
„Leikmennirnir fóru að tækla, sparka og lemja hvern annan. Þetta varð að slagsmálum á miðju gólfi. Áður en mér tókst að draga menn í sundur var einn rotaður, nokkrir með glóðurauga og einn farinn úr axlarlið.“ sagði Naismith í viðtali síðar þegar hann gerði upp þennan leik.
„Eftir þennan fyrsta leik var ég hræddur um að leikmenn myndu hreinlega drepa hvern annan. Þeir nöldruðu þó svo mikið í mér að fá að spila aftur að ég samdi fleiri reglur. Sú mikilvægasta var að leikmenn máttu ekki lengur hlaupa með boltann.“
„Við það stoppuðu tæklingarnar og slagsmálin. Við prufuðum þessar reglur og það urðu engin slys. Við vorum með hreina íþrótt.“
Allt til dagsins í dag fylgjumst við með körfubolta. Enn er verið að gera reglubreytingar þó blessunarlega hafi slagsmálum fækkað ansi mikið á þessum 130 árum.