spot_img
HomeFréttir11. sæti: Tindastóll

11. sæti: Tindastóll

17:38 

{mosimage}

 

 (Svavar Birgisson í leik gegn Stjörnunni)

 

 

Stólunum er spáð falli í 1. deild að þessu sinni en þeir fengu aðeins 10 stig í spánni sem Karfan.is gerði og því er gert ráð fyrir að þeir ljúki keppni í 11. sæti deildarinnar. Tindastóll var vafalítið sterkasta liðið í 1. deild á síðustu leiktíð en spekingar hjá Karfan.is telja að Tindastóll hafi ekki nægilega sterkan hóp til að halda sér uppi að þessu sinni.

 

Keflvíkingurinn og þriggjastiga eldflauginn Kristinn Friðriksson er þjálfari Tindastóls og það er aldrei að vita hvað hann nær að kreista út úr liðinu í vetur. Kristinn gerir ráð fyrir því að vera eitthvað með liðinu í vetur ef það lendir í vandræðum með leikmannahópinn, annars er hans aðalstarf þjálfun liðsins.

 

Ekki er langt síðan Tindastóll lék til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn en það var gegn núverandi Íslandsmeisturum í Njarðvík árið 2001. Eftir það fór að halla undan fæti og Stólarnir höfnuðu í 1. deild en eru nú komnir meðal sterkustu liða landsins að nýju. Lamar Karim lofar góðu fyrir stólana en hann er tæpir 180 sm að hæð og stekkur gríðarlega hátt, Karim mun skila hlutverki leikstjórnanda í vetur en hann ku vera eldsnöggur og sterkur leikmaður.

 

Tindastóll má ekki einvörðungu treysta á framlag erlendra leikmanna en fyrir hjá liðinu eru þeir Svavar Birgisson og Ísak Einarsson sem báðir hafa töluverða reynslu í úrvalsdeild. Gunnlaugur Elsuson er kominn aftur heim eftir veru hjá ÍR, Hamri/Selfoss og KR síðustu tímabil og þar er á ferðinni baráttujaxl sem Stólarnir geta vel notað. Steve Parillon kemur frá Jómfrúareyjum og þá Milojica Zekovic frá Svartfjallalandi. Allir þrír erlendu leikmennirnir verða að eiga skínandi gott tímabil ef Tindastóll á að halda sér uppi. Hafið einnig augastað á Bjarna Bjarnasyni, Laugvetningur í húð og hár og hættir aldrei að berjast.

 

Leikmannahópur Tindastóls:

 

Andri Árnason

Árni Einar Adolfsson

Bjarni Bjarnason

Davíð Ragnarsson

Gunnlaugur Elsuson

Halldór Halldórsson

Helgi Rafn Viggósson

Hreinn Birgisson

Ingvi Guðmundsson

Ísak Einarsson

Lamar Karim

Milojica Zekovic

Steve Parillon

Svavar Birgisson

 

Karfan.is spáir Tindstól falli en þeir fengu alls 10 stig þegar Karfan.is setti saman sína spá sem setur liðið í 11. sæti deildarinnar.

Fréttir
- Auglýsing -