Það fer heldur betur að styttast í stóru stundina. Í dag eru einungis 10 dagar í að Ísland hefji leik á lokamóti Eurobasket 2017 og það í annað skiptið í röð.
Þann 31. ágúst klukkan 13:30 á íslenskum tíma stígur Ísland á völlinn gegn sterku liði Grikklands. Það verður fyrsti leikur Íslands af fimm leikjum á átta dögum.
Karfan.is mun hita vel upp fram að móti og telja niður dagana til að stytta biðina. Í dag eru 10 dagar í mótið og hitum við upp með sigurkörfu Pálmars Sigurðssonar gegn Noregi frá 19. apríl 1986. Ekki ólíkt þeim stóru sigrum sem íslenska landsliðið hefur unnið á síðustu árum, var á þessum tíma talað um að þarna færi einn stærsti sigur íslensks körfuknattleiks.
Leikurinn var mjög mikilvægur fyrir Ísland. Þar sem að sæti í B deild Evrópukeppninnar var í húfi, en Ísland hafði aldrei áður átt sæti þar. Í stöðunni 72-72 og aðeins nokkrar sekúndur eru eftir af leiknum er Noregur með boltann. Með hjálp frá fyrirliða liðsins, Torfa Magnússyni, stelur Pálmar þá boltnum geysist upp völlinn og smellir niður þriggja stiga körfu um leið og klukkan rennur út.
?
Þjálfari liðsins, Einar Bollason, réð sér vart af kæti í leikslok – ljósmynd / DV
Stigahæstur fyrir Ísland í þessum leik var Valur Ingimundarson með 25 stig, Pálmar var næst stigahæstur með 24, þar á eftir komu Birgir Mikaelsson með 9, Guðni Guðnson 7, Símon Ólafsson 4, Torfi Magnússon 2, Matthías Matthíasson 2 og Þorvaldur Geirsson 2.
Í viðtali eftir þennan leik sagði Pálmar í samtali við DV:
"Þegar ég fór upp í skotið var síðasta sekúndan að rjúka út. Þetta var ólýsanlegt. Það er ekki nokkur leið að lýsa þeirri tilfinningu sem fór um mann þegar boltinn hafnaði í körfunni og við höfðum tryggt okkur rétt til að leika í B-keppninni"
Niðurstaðan, 75-72, færði Íslandi efsta sæti riðilsins, sem innihélt þá, Noreg, Portúgal, Skotland og Írland. Fyrir leikinn hafði Noregur verið efst, en eftir hann, sökum betri innbyrðisstöðu, var það Ísland sem vann riðilinn. Pálmar var annar stigahæsti maður mótsins og var ásamt Henrique Vieira (Portúgal), Haakon Austerfjord (Noregur) og Arild Beck (Noregur) valinn í úrvalslið mótsins.
Pálmar spilaði 74 leiki á 10 ára tímabili með íslenska landsliðinu frá árinu 1982 til ársins 1992.
Hérna má sjá fleiri myndir og umfjöllun um leikinn
Mynd / KKÍ – Frá ferð A-landsliðs karla til Osló í Noregi í janúar þessa sama árs1986. Jón Kr. Gíslason, Guðni Guðnason, Valur Ingimundarson og Pálmar Sigurðsson.