spot_img
HomeFréttir10 Bestu

10 Bestu

 

Nú eftir 1. júlí síðastliðinn opnaðist leikmannamarkaður NBA deildarinnar upp á gátt aftur. Launaþak deildarinnar er að hækka og það er eins og gjörsamlega allir hafi misst vitið. Sem dæmi þá fékk Mike Conley, leikmaður Memphis Grizzlies, á dögunum besta samning sem sést hefur í sögu NBA deildarinnar. Mikið af liðum eru ennþá að ræða við mikið af leikmönnum, ekki skrýtið, enda erum við bara á fjórða degi. Hérna eru 10, mögulega, bestu leikmannaskiptin sem orðið hafa síðastliðna daga.

 

Það skal tekið fram að þetta er aðeins fyrsti hlutinn af seríu sem virðist ætla að verða löng. Einnig er listinn ekki í neinni sérstakri röð.

 

 

 

1. Derrick Rose til New York Knicks

 

21.3 miljónir $ í gegnum skipti við Chicago Bulls (er á samningsári)

 

Þessi fyrrum verðmætasti leikmaður deildarinnar hefur síðastliðin ár farið í gegnum virkilega harða tíma, en eftir að hafa aðeins spilað 10 leiki leiktíðina 2013-14 virðist kappinn allur vera að koma til. Spilaði 51 leik þar síðasta tímabil og 66 leiki í fyrra. Svipur af sjón, vissulega, en var samt sem áður að skila flottum tölum í fyrra, 17 stig og 5 stoðsendingar að meðaltali í leik. Þykkur skrápur kappans (sem hann hlýtur að vera kominn með eftir allt vesenið í kringum hann) á eftir að virka vel fyrir hann í mjög gagnrýnu körfuboltaumhverfi stærstu borgar Bandaríkjanna, New York.

 

 

2. Kevin Durant til Golden State Warriors

 

28.5 miljónir $ á frjálsri sölu frá Oklahoma City Thunder (tveggja ára samningur)

 

Annar fyrrum verðmætasti leikmaður deildarinnar skiptir um lið. Líkt og Rose, hefur Durant farið í gegnum einhver meiðsli síðastliðin tímabil. Kom þó vel girtur inn í úrslitakeppni síðasta tímabils og sannaði fyrir öllum að þarna er á ferðinni einn af fimm bestu leikmönnum deildarinnar. Leysir að miklu leyti framherja vandræði (ef vandræði mætti kalla) sigursælasta liðs deildarinnar síðastliðið tímabil. Það sem Warriors þurfa að láta í staðinn er líklega Andrew Bogut og Harrison Barnes (sökum þess hvað það mun kosta mikið að semja við þá aftur) Það er samt í raun frekar lágt gjald fyrir að geta stillt upp einu vígalegasta byrjunarliði sem deildin hefur séð. Klay, Steph, Durant, Green og Igoudala. Guð minn almáttugur.

 

 

3. Pau Gasol til San Antonio Spurs

 

15 miljónir $ á frjálsri sölu frá Chicago Bulls (tveggja ára samningur)

 

Nú herma nýjustu fregnir að Tim Duncan sé að hætta, það er spurning hvaða máli það skiptir fyrir San Antonio Spurs liðið. Hann gat svosem ekki mikið á síðasta tímabili og kannski er kominn tími á hann. Því við hæfi að ná bara í annan reynslumikinn fyrrum meistara (sem getur ennþá spilað) til þess að koma í staðinn. Reyndar næstum kominn á aldur sjálfur en á samt eftir að gera allskonar hluti fyrir San Antonio. Skilaði 17 stigum og 11 fráköstum að meðaltali fyrir Chicago í fyrra.

 

 

4. Rajon Rondo til Chicago Bulls

 

14 miljónir $ á frjálsri sölu frá Sacramento Kings (tveggja ára samningur)

 

Eftir að hafa sýnt listir sínar duglega í eyðimörkinni (hjá Sacramento Kings) á síðasta tímabili hefur Rondo nú ákveðið að taka aftur þátt í skipulögðum körfubolta með Chicago Bulls. Sem er frábært. Gaman samt að fylgjast með hæfileikum hans hjá Kings, skilaði 12 stigum og 12 stoðsendingum (flestar í deildinni) að meðaltali í leik. Getan er til staðar, en hann er víst eilítið erfiður í umgengni. Stóra spurningin er því kannski hversu vel hann á eftir að geta unnið með stjörnu liðsins, Jimmy Butler? 

 

 

5. Al Horford til Boston Celtics

 

28.25 miljónir $ á frjálsri sölu frá Atlanta Hawks (fjögurra ára samningur)

 

Boston Celtics endaði í 3.-6. sæti austurdeildarinnar á síðasta tímabili, unnu 48 leiki. Sem er hreint frábær árangur sé litið á hvaða lið þeir höfðu. Þó Isaiah Thomas hafi verið valinn í stjörnuliðið, þá er enginn eiginlegur stjörnuleikmaður í þessu liði. Það virðist vera einhver meðbyr með þjálfaranum Brad Stevens sem og framkvæmdarstjóranum Danny Ainge. Áttu 3. valrétt nýliðavals þessa árs og voru að ná sér í stjörnuleikmann í Al Horford (15 stig 7 fráköst að meðaltali í fyrra) Verður spennandi að fylgjast með þessari þróun þeirra og hvort þetta sé nóg til þess að veita meisturum Cleveland Cavaliers samkeppni austurstrandarmegin.

 

 

6. Ryan Anderson til Houston Rockets

 

20 miljónir $ á frjálsri sölu frá New Orleans Pelicans (fjögurra ára samningur)

 

Nú veit maður ekki hverskonar brunarústir Dwight Howard skildi eftir sig í Houston (Los Angeles Lakers og Orlando Magic bæði enn að jafna sig eftir viðkomu hans) Þeir eru samt með ágætis leikmenn innanborðs. James Harden hefur verið stórfenglegur á köflum síðastliðin ár. Koma Anderson, sem skilaði fínum tölum í slöku liði Pelicans í fyrra (17 stig og 6 fráköst), ætti að vera gleðiefni fyrir aðdáendur Rockets.

 

 

7. Luol Deng til Los Angeles Lakers

 

18 miljónir $ á frjálsri sölu frá Miami Heat (fjögurra ára samningur)

 

Bretinn Luol Deng hefur aldrei skorað minna en 12 stig eða tekið minna en 5 fráköst að meðaltali í leik frá því að hann kom inn í deildina árið 2004. Hefur skilað sínu hlutverki fyrir öll þau lið sem hann hefur spilað fyrir (lengst af Chicago Bulls) Það er engum blöðum um það að fletta að Los Angeles Lakers séu í umbreytingu um þessar mundir. Byrjunarlið þeirra næsta tímabil mun að öllum líkindum innihalda 4/5 leikmenn sem hafa spilað 2 ár eða minna í deildinni. Kjörið tækifæri fyrir Deng að skína sem skærast undir þeim kringumstæðum.

 

 

8. Joakim Noah til New York Knicks

 

18 miljónir $ á frjálsri sölu frá Chicago Bulls (fjögurra ára samningur)

 

Fyrrum varnarmaður ársins í NBA deildinni. Vissulega, líkt og ferðafélagi hans frá Chicago Derrick Rose,hafa meiðsli plagað leikmanninn síðustu tímabil. Spilaði aðeins 29 leiki á síðasta tímabili, en hey, hann er ekki nema 31. árs gamall. Ekkert unglamb kannski, en heldur ekkert kominn á aldur. Hver veit nema Phil Jackson og félagar í New York nái að töfra fram eitthvað úr Noah? Guð veit að hæfileikarnir eru til staðar.

 

 

9. Chandler Parsons til Memphis Grizzlies

 

23.5 miljónir $ á frjálsri sölu frá Dallas Mavericks (fjögurra ára samningur)

 

Tími Parsons hjá Mavericks fór eitthvað, en ekki allur í meiðsli. Hann skilaði eitthvað í kringum 15 stigum og 5 fráköstum að meðaltali í leik síðustu tvö tímabil. Það sem kannski meira er er að hann er 40% þriggja stiga skytta. Það er eitthvað sem Grizzlies sár vantaði. Tímabilið þeirra í fyrra fór algjörlega í vaskinn (komust samt inn í úrslitakeppnina), gjörsamlega allir meiddir, því kannski ekki hægt að bera það saman við það næsta. Þar munu þeir eiga þess kost að geta byrjað með Conley, Allen, Parsons, Randolph og Gasol. Það er ekki slæmt.

 

 

10. Jeremy Lin til Brooklyn Nets

 

12 miljónir $ á frjálsri sölu frá Charlotte Hornets (þriggja ára samningur)

 

Jeremy Lin er góður leikmaður. Í fyrra með Charlotte Hornets sannaði hann það að “Linsanity” æðið sem hann fór í gegnum hér um árið var ekkert óvart. Fór með Hornets í oddaleik á móti Miami Heat í fyrstu umferð úrslitakeppninnar þar sem hann skoraði 13 stig og gaf 3 stoðsendingar að meðaltali í leik þrátt fyrir að vera þar sem varaskeifa Kemba Walker. Nú skulum við gera ráð fyrir því að hann fái að byrja aftur inni á vellinum á næsta tímabili (Brooklyn Nets ekki beint skeinuhættir) Spáum þá því að tölurnar hans tvöfaldist og hann eigi eftir að skora 20+ stig að meðaltali í leik og gefa 6-8 stoðsendingar og fyrir þennan pening er það rán um hábjartan dag.

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -