spot_img
HomeFréttir1. deild karla - 7. sæti KFÍ

1. deild karla – 7. sæti KFÍ

Sérfræðingarnir knáu spá KFÍ 7. sætinu.  

KFÍ tók fyrst þátt í Íslandsmóti 1969 og tók þátt með hléum til ársins 1986. 1992 mætti liðið svo aftur til leiks en stór hópur leikmanna þess hafði leikið undir merkjum Bolungarvíkur veturna á undan. Liðið vann sig á öðru ári upp í 1. deild í úrslitakeppni sem fram fór á Ísafirði.

{mosimage}

Liðið stoppaði aðeins í 2 ár í 1. deild  og var þá komið í hóp hinna bestu í Úrvalsdeild, þar voru Ísfirðingar til ársins 2001 og höfðu m.a. leikið til úrslita í bikarkeppninni og liðið komist í undanúrslit Úrvalsdeildarinnar. Liðið var aftur aðeins 2 ár í 1. deildinni og kom aftur upp og lék þar í 2 ár og samkvæmt hefðinni ættu þeir að fara upp aftur núna. 

KFÍ hefur fengið nokkra leikmenn t.d. Pance Ilieveski frá Makedóníu og Bojan Popovich frá Serbíu en misst allstóran hóp Sigurð Þorsteinsson til Keflavíkur, Birgi Björn Pétursson til Þórs Þ, Böðvar Sigurbjörnsson til Stjörnunnar og Harald Jón Jóhannesson til Grindavíkur 

Baldur Ingi Jónasson er þjálfari Ísfirðinga en hann hefur leikið með þeim svo lengi sem elstu menn muna, hefur m.a. leikið alla Úrvalsdeildarleiki Ísfirðinga nema 3. 

Eins og aðrir þjálfarar í deildinni spreytti Baldur sig á spurningalista karfan.is og hér eru svörin hans. 

Hvaða leikmaður/menn í þínu liði eiga eftir að koma á óvart í vetur?

Þeir leikmenn sem eiga eftir að koma á óvart hjá okkur í KFÍ eru þeir Bjarni Valgeirsson og Þórir Guðmundsson sem hafa tekið miklum framförum að undanförnu, bæði sóknarlega og varnarlega. 

Hvaða íslensku leikmönnum er vert að fylgjast með í þínu liði?

Þeir sömu og nefndir eru hér að ofan. 

Er liðið með erlendan leikmann?

Við fengum til okkar tvo erlenda leikmenn frá Makedóníu og Serbíu. 

Hefur undirbúningur liðsins fyrir tímabilið verið ásættanlegur?

Því miður hefði undirbúningur getað verið betri þar sem fullskipað lið er aðeins nýlega komið saman.  Aðeins lítill hluti leikmanna tók þátt í öllu undirbúningstímabilinu sem gerir það að verkum að menn eru misjafnlega á sig komnir hvað form varðar. 

Hvað er einkennandi fyrir leikstíl þíns liðs?

Það sem kemur til með að einkenna leik okkar er hraður leikur og inside out half court leikur þegar við setjum upp.  Þá mun ég ætlast til af leikmönnum mínum að þeir spili mannsæmandi vörn. 

Hvert er markmiðið fyrir tímabilið?

Markmiðið er að vera meðal fjögurra efstu liðanna. 

Hvaða lið á eftir að koma á óvart í vetur?

Á erfitt með að dæma um það þar sem ég hef ekki séð liðin spila. 

Hvaða lið vinnur deildina?

Ég hef það á tilfinningunni að þetta verði barátta milli Þórs Akureyri, Breiðabliks og Vals.  Við munum vonandi vera í baráttunni einnig. 

Hvernig sérð þú 1. deildina fyrir þér í framtíðinni?

Ég vona svo sannarlega að um a.m.k. 10 liða deild verði að ræða.  Eitthvað átak þarf þó að gera í því að gera deildina meira aðlaðandi fyrir lið að taka þátt í.  Það er sorglegt til þess að vita að ferðakostnaður (sem reyndar er mikill fyrir liðin í ár) skuli hamla liðum til þátttöku.  Svo virðist sem áhuginn sé ekki meiri en svo að menn leggi ekki í að safna fyrir ferðakostnaði.  Það er vert að skoða á gagnrýninn hátt.  

[email protected]

mynd: kfi.is

Fréttir
- Auglýsing -