spot_img
HomeFréttir1-2! Stórgóð frammistaða Íslandsmeistaranna!

1-2! Stórgóð frammistaða Íslandsmeistaranna!

Valur-KR, leikur 3, staðan er 1-1! Þeir sem hafa ekki lesið innganginn smelli hér. Annars vindum við okkur beint í Kúluna góðu.

Spádómskúlan: Gjörðu svo vel, ber upp spádóm þinn!                  

,,Það er aldeilis sagan!“ segir Kúlan. ,,Ég þekki sögur vel og kann þær margar. Þessi sería endar með því að annað liðið vinnur einum leik meira en hitt…og í þessum leik vinna Valsmenn með einu stigi, 101-100.“

Byrjunarlið:

Valur: Bilic, Hjálmar, Jordan, Cardoso, Kristó

KR: Matti, Brilli, Sabin, Zarko, Kobbi

Gangur leiksins

Cardoso kom beint úr Múspellsheimi inn í leikinn og var gersamlega á eldi. Að vísu var varnarleikur KR-inga ekkert í líkingu við það sem sést hefur á köflum í þessari seríu en KR-ingum til happs var sömu sögu að segja um vörn Vals. Gestirnir skoruðu bara líka hinum megin og skotmenn KR-inga voru eins og einmana yfirgefin síld í stórri tunnu, svo opnir voru þeir. Heimamenn voru þó skrefinu á undan og leiddu 34-27. Cardoso kominn með 17 stig!

Sóknarfjörið hélt áfram í öðrum leikhluta og nú voru KR-ingarnir heimamönnum lítið eitt fremri. Brandon kom mjög sterkur inn af bekknum og setti allt ofaní, jafnaði leika í 36-36 og tróð svo sínum mönnum yfir um miðjan leikhlutann, 43-44! Logandi Cardoso og Jordan svöruðu fyrir Valsmenn með þristum og aftur leiddu Valsmenn, 49-47. Við tók tveggja stiga körfusýning, m.a. bauð Kristó upp á troðslu, en gestirnir höfðu samt betur í þessari sýningu og allt var jafnt í hálfleik, 59-59. Cardoso var með heil 27 stig og Brandon 19 fyrir KR. Nýting KR í þriggja stiga skotum var 68%, 11/16, sem er svo sem ekkert nýtt í seríunni.

Sabin setti tóninn fyrir síðari hálfleikinn með enn einum þristinum. Gestinir fóru vel af stað og sigldu örugglega fram úr Völsurum og um miðjan leikhlutann leiddu meistararnir með 10 stigum, 68-78. Finnur tók þá leikhlé og það skilaði sér í fjórum stigum heimamanna en KR-ingar héldu þó áfram að hafa leikinn í sínum höndum. Vörnin hjá gestunum var allmikið betri eftir hlé og náðu oft að frysta sóknina hjá Val, það byrjaði jafnvel að snjóa í Múspellsheimum. Það kristallaðist í enn einum vondum töpuðum bolta hjá Jordan í lokasókn Vals í leikhlutanum og Sabin óð upp völlinn og lokaði leikhlutanum eins og hann hóf hann. Staðan 78-90 og útlitið verulega dökkt fyrir Hlíðarendapilta.

Tyler nokkur Sabin hóf lokafjórðunginn á svaðalegum þristi og nákvæmlega ekkert benti til þess að Valsmenn myndu rétta úr kútnum. Bilic gaf sínum mönnum þó von með 5 stigum í framhaldinu og Cardoso minnkaði muninn með þristi í 90-94 þegar 7 mínútur voru eftir. En þá var komið að Brandonar þætti Nazione, hann skoraði alls staðar af vellinum og þegar 5 mínútur lifðu leiks voru KR-ingar 92-104 yfir. Það er kannski ljótt að hamast sífellt á manni sem heitir Jordan en hann tapaði enn og aftur bolta illa skömmu síðar og Brilli kláraði leikinn með þristi þegar um tvær mínútur voru eftir og staðan 100-111. Lokatölur urðu 103-115 – afar hrífandi frammistaða Íslandsmeistaranna!

Menn leiksins

Sabin og Brandon voru eins og svikamylla í þessum leik. Sabin setti 35 stig og gaf einnig 11 stoðsendingar! Brandon skoraði 33, tók 9 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Skotnýting kappanna var líka alveg sturluð! Kíkið á stattið!

Hjá Val var Cardoso bestur með 34 stig, 7 fráköst og 4 stoðsendingar. Kristó og Bilic skiluðu ágætum tölum líka en Valsmenn eru ekki líklegir til að vinna leiki þegar þeir fá 115 stig á sig.

Kjarninn

KR-ingar spiluðu frábærlega í þessum leik, ekki síst sóknarlega. Sabin og Brandon klikkuðu varla úr skoti í leiknum og skoruðu 68 stig samtals! Kannski myndu einhverjir segja að það væri áhyggjuefni að tveir leikmenn skori svo stóran hluta stiga liðsins en hver leikur á sitt líf og þetta gæti orðið allt öðruvísi í næsta leik, eins og undirritaður hefur lært af Arnari G. Eitt, af vafalaust mörgu öðru, sem leiddi til sigurs meistaranna var miklu betri frammistaða í frákastabaráttunni.

Það eru vafalaust margir farnir að gefa oddaleik upp á bátinn og sjá ekki mikla von fyrir Valsmenn. Liðið hitti betur en áður í seríunni en það dugði skammt, frákastayfirburðir Vals voru aftur á móti engir í kvöld. En takturinn slær með útiliðinu eingöngu hingað til, svona fyrir utan það að Finnur Freyr, Pavel, Jón, Kristó og aðrir kappar liðsins leggjast örugglega ekki í eymd, uppgjöf og volæði. Leikur 4 verður áhugaverður án nokkurs vafa!

Athygliverðir punktar:

  • Stuðningsmenn Vals fá risastórt hrós fyrir sitt innlegg í kvöld! Umtalsvert af fólki, síld við síld, ógnarstór Valsfáni á ferð! Mjög gott og nú hættir undirritaður og örugglega fleiri að gera grín að Val hvað þetta varðar.
  • Valsmenn voru nokkuð fjölmennir eins og segir að ofan en einnig var enginn skortur á gæslumönnum á þessum leik! Undirritaður var heppinn að komast inn í húsið, heppinn að komast upp í blaðamannastúku og ljónheppinn að fá að taka viðtöl eftir leik. Kannski ekki við Valsmenn að sakast, þeir eru að reyna að fylgja landslögum. En hættiði nú þessu helvítis rugli og opnið á líf fólks í þessu landi. Covid er búið – úrslitakeppnin er byrjuð!

Tölfræði leiks

Myndasafn (Bára Dröfn)

Fréttir
- Auglýsing -