Benedikt Guðmundsson hefur verið ráðinn í starf þjálfara yngri flokka hjá Fjölni.
Benedikt kemur til Fjölnis frá meistaraflokki karla hjá Tindastóli, en þá var hann einnig landsliðsþjálfari kvenna síðustu ár.
Gengið hefur verið frá ráðningu Benedikts Rúnars Guðmundssonar í starf þjálfara yngri flokka hjá Körfuknattleiksdeild Fjölnis. Hann á langan og farsælan feril að baki, hefur unnið með fjölmörgum félagsliðum og oft hlotið Íslands- og bikarmeistaratitla með bæði unglinga- og meistaraflokki.
Arnar B. Sigurðsson, formaður Fjölnis: „Ráðning Benedikts er stórt skref í okkar stefnu að hækka prófíl og styrkja stöðu Fjölnis í íslenskum körfuknattleik. Með reynslu og þekkingu mun Benedikt leiða yngri flokkana áfram á vegi framfara og þróunar. Við í stjórninni erum sannfærð um að með ráðningu hans styrkjum við enn frekar þá öru uppbyggingu sem átt hefur sér stað í yngriflokkastarfi félagsins á síðustu árum.“
Benedikt Rúnar Guðmundsson: „Ég er mjög spenntur fyrir nýju verkefni hjá Fjölni. Þessi hópur er áhugaverður og metnaðarfullur, og ég hlakka til að vinna með stjórn, iðkendum og öðrum þjálfurum, mörgum þeirra hef ég unnið með áður. Síðan ég var hjá Fjölni tímabilið 2020–2021 hefur alltaf verið planið að koma aftur, því hér leið mér mjög vel. Ég er því hæstánægður að vera kominn aftur og vera partur af frábæru ungliðastarfi.“