spot_img
HomeFréttirUmgjörð leikja

Umgjörð leikja

13:07

{mosimage}

Kristinn Óskarsson skrifar um dómaramál.

Í síðustu viku fjallaði ég um reynslu leikmanna og dómara og velti því upp hvort frekar væri dæmt á unga leikmenn fremur en þá eldri.  Í þessarri viku langar mig að fjalla um mál sem ég hef lengi haft miklar skoðanir á þ.e. umgjörð leikja.

Körfuknattleikshreyfingin á Íslandi er knúin áfram af sjálboðaliðastarfi og ber okkur körfuknattleiksunnendum að bera viðringu fyrir því og þakka öll þau óeigingjörnu störf sem unnin eru.  Oft er það svo að allt of stór hluti starfa sem þarf að vinna lenda á fáum einstaklingum sem eru í stjórnum hjá viðkomandi liðum víðsvegar um landið.  Þannig endast fáir mjög lengi í stjórnum, þar sem störfin eru það viðamikil að fólk þverr kraftur.  Þannig vill það gerast  að þegar fólk hefur virkilega náð góðum tökum á starfinu og er búið að koma sér upp djúpum skilningi og góðu tengslaneti þá hættir það.  Slíkt er afar svekkjandi og virkileg eftirsjá í slíku fólki fyrir okkar hreyfingu.

Eitt af því sem hægt er að gera til að sporna við því að álagið verði of mikið og fólk brenni út er meiri og betri verkaskipting.  Þannig væri umsjón með heimaleikjum eitt verkefni.  Ég ætla það sem eftir er í þessum pistli eingöngu að ræða þann þátt en mun ekki minnast á önnur störf stjórnarmanna, eins mikilvæg og þau samt eru. 

Í umsjón með heimaleikjum felst einkum:  stilla upp í salnum, (ritaraborð, varamannabekkir, auglýsingaskilti o.þ.h.), athuga með nauðsynlegan búnað; körfur, klukkur, tölfræðitölvu og prentara, bolta, kústa/moppur, skýrslur,  penna o.þ.h.   Manna miðasölu, sjoppu, gæslu, ritaraborð, tölfræði og aðila til að þurrka svita af gólfi.  Tryggja það að aðbúnaður sé góður í klefum heimaliðs, aðkomuliðs og dómara (að allt sé hreint, læst og slíkt).  Hafa einn aðila ábyrgan á staðnum fyrir samskiptum við dómara varðandi aðbúnað, gæslu, greiðslu reikninga og hvaðeina.

Mörg lið gera þessa hluti vel og greinilegt er að sömu aðilarnir sjá ár eftir ár um sömu hlutina og er það til fyrirmyndar.  Allir þessir hlutir eru mikilvægir, en starfsmenn á ritaraborði eru sínu mikilvægastir fyrir okkur dómarana og eru þeir í raun hluti af okkar liði.  Það er okkur afar  mikilvægt að starfsmenn hafi fengið næga kennslu, þjálfun og reynslu til að starfa á leikjum í efstu deild.  Ég hef verið það lánsamur að fá tækifæri til að ferðast um alla Evrópu til að dæma og bjó eitt ár á Spáni.  Hvar sem að maður kemur að keppni á efsta stigi eru starfsmenn fullorðið fólk sem hefur margra ára reynslu sem starfsmenn ritaraborðs og leggur metnað sinn í að standa sig framúrskarandi rétt eins og leikmenn og dómarar.  Því miður hefur það viljað brenna við að starfsmenn ritaraborða hér hafi ekki næga þjálfun og reynslu að baki og séu of ungir.  Ég vil taka það fram að undanfarin ár hafa orðið á vegi mínum framúrskarandi unglingar sem hafa rækt þessi störf að trúmennsku og dugnaði og sumir hverjir óaðfinnanlega.  En mistök gerast og þá á ekki að setja unglinga í skotlínu eins og getur orðið undir þessum kringumstæðum.  Í efstu deildum karla og kvenna  eru í dag of mörg ritaraborð skipuð of ungu fólki sem ekki hefur fengið næga kennslu og þjálfun.

Ég hef orðið vitni að því að framkoma þjálfara og forsvarsmanna liða hafa verið það svæsin að starfsmenn hafa ekki fengist í störfin aftur og sumir hafa ekki sést á leikjum síðan.  Slíkt er ekki afsakanlegt en hendir því miður. 

Einhverra hluta vegna hefur ekki tekist að fá fullorðna einstaklinga til að taka störf á ritaraborði að sér varanlega og byggja þannig upp stétt fagfólks sem seinna gæti leitt til þess a í stærstu leikjum væri hægt að tilnefna hlutlausa starfsmenn á ritaraborð.  Ég skora á körfuknattleiksfólk sem hætt er keppni að gefa sig fram við sína körfuknattleiksdeild og bjóða fram krafta sína sem starfsmenn á ritaraborði.  Þetta er tilvalið áhugamál fyrir vini eða vinkonur, en reynslan sýnir að þessi störf henta konum einstaklega vel.  Sjálfur bíð ég fram krafta mína til að leiðbeina þessu fólki og efast ekki um að vinir mínir í dómarastétt leggjist á áranar með, sé þess óskað.

Samantekt:
Mörg störf hvíla á stjórnarmönnum í sjálfboðavinnu
Starfsmenn ritaraborðs eru of oft unglingar sem ekki hafa notið nægrar kennslu og þjálfunar
Skorað er á körfuboltafólk sem hætt er að keppa að gefa sig fram til starfa á ritaraborði.

Kær kveðja,
Kristinn Óskarsson, alþjóðlegur körfuknattleiksdómari

Fyrri skrif Kristins
Af hverju er alltaf dæmt á unga leikmanninn?

Afhverju dæmir dómarinn ekki

Snertingar milli varnar- og sóknarmanns

Mynd: Sanne Berg

Fréttir
- Auglýsing -