spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaSylvía Rún snýr aftur á völlinn og semur við nýliðana

Sylvía Rún snýr aftur á völlinn og semur við nýliðana

Nýliðar Ármanns tilkynntu rétt í þessu að liðið hefði samið við hina öflugu Sylvíu Rún Hálfdánardóttir um að snúa aftur á völlinn og leika með liðinu í Bónus deildinni.

Sylvía var ein efnilegasti leikmaður landsins og á að baki landsleiki með öllum landsliðum Íslands. Síðustu ár hefur hún tekið sér frí frá körfuknattleiksiðkun en hefur nú ákveðið að snúa aftur og verður væntanlega mikill liðsstyrkur fyrir Ármenninga sem leika í efstu deild.

Tilkynningu Ármenninga má finna í heild sinni hér að neðan:

Körfuknattleiksdeild Ármanns tilkynnir með stolti að Sylvía Rún Hálfdánardóttir hafi skrifað undir samning við félagið og mun leika með meistaraflokki kvenna í Bónus deildinni á komandi keppnistímabili.

Sylvía Rún er 26 ára gamall leikmaður sem hefur á að skipa mikilli reynslu úr efstu deildum íslensks körfuknattleiks. Hún hóf feril sinn með Haukum og hefur síðan þá leikið með liðum á borð við Stjörnuna, Þór Akureyri og Val. Með Val varð hún bikarmeistari árið 2019 og hefur einnig verið lykilleikmaður í yngri landsliðum Íslands, þar sem hún vakti athygli fyrir hæfileika sína. Árið 2016 var hún valin í úrvalslið Evrópumóts U18 B-deildar en hún á að baki fjölmarga leiki með yngri landsleikjum. Þá á hún einnig að baki fjóra A landsleiki fyrir Íslands hönd.

Eftir hlé frá keppni snýr Sylvía nú aftur á parketið og er tilbúin að leggja sitt af mörkum í nýju og spennandi verkefni með Ármann. Félagið fagnaði nýverið sæti í Bónus deild kvenna og er markmiðið að byggja upp samkeppnishæft lið sem getur barist við öll lið í deildinni.

„Við erum gríðarlega ánægð með að fá Sylvíu í okkar raðir. Hún bætir bæði gæði og dýpt í hópinn og kemur með mikilvæga reynslu sem mun nýtast okkar liði vel í þeirri baráttu sem er framundan,“ segir Karl þjálfari liðsins þegar skrifað var undir við Sylvíu.

Sylvía sjálf segist spennt fyrir nýjum kafla á ferlinum:
„Þrátt fyrir að ég hafi tekið mér pásu frá því að spila körfubolta að þá hef ég svo sannarlega ekki tekið mér pásu frá því að hreyfa mig og byggt mig upp bæði andlega og líkamlega. Þetta hefur verið nauðsynlegur tími fyrir mig að þroskast eftir 17 ár að spila körfubolta. Þrátt fyrir að það hafi verið ótrúlega krefjandi ákvörðun að hætta á sínum tíma þá var þetta nauðsynlegt og sætara að koma aftur nokkrum árum eldri, með meiri lífsreynslu á bakinu og tilbúinn að gefa baráttu orku mína til Ármanns.“

„Ég er fyrst og fremst komin til þess að vera góður liðsfélagi en ég er svo sannarlega líka komin til þess að berjast! Ég þakka Ármanni að hafa trú á mér og er ég spennt að fá að spila með og á móti frábærum konum í körfubolta. Það verður mögnuð tilfinning að fá að klæðast búning númer “6” aftur þar sem sú tala hefur verið happa talan mín síðan ég byrjaði sem lítil körfubolta stelpa.“

Með komu Sylvíu styrkist leikmannahópur Ármanns verulega og undirstrikar félagið þannig metnað sinn fyrir komandi tímabil.

Fréttir
- Auglýsing -