Franski körfuknattleiksmaðurinn Steeve Ho You Fat tilkynnti á dögunum á Instagram að hann hefði lagt skóna á hilluna eftir 17 ára feril.
Steeve lék allan sinn feril í Frakklandi fyrir utan síðasta tímabil sem hann skipti á milli Hauka og Þórs Þorlákshafnar. Tímabilinu hans á Íslandi, og í raun ferlinum, lauk á frekar leiðinlegan hátt þegar hann braut hnéskél í leik með Þór á móti Haukum.
Steeve lék 11 deildarleiki fyrir Hauka, þar sem hann var með 14,5 stig og 7,0 fráköst að meðaltali í leik. Hann skipti yfir til Þórs á miðju tímabilinu en meiddist í sínum öðrum leik með félaginu.