Friðrik Ragnarsson í Grindavíkurbúning
Heimamenn í B-liði Grindvíkinga komust ekki langt gegn Grindavík –A í gærkvöldi þar sem þeir síðarnenfndu gersigruðu þá eldri 127 – . Ekki hófst leikurinn byrlega fyrir heimamenn þar sem að gestirnir skoruðu fyrstu 19 stig leiksins.
Mikil eftirvænting var í Grindavík eftir þessum stórleik og í raun langt síðan svo margar myndavélar hafa sést í Röstinni. Lið B var skipað ýmsum gömlum kempum á borð við Guðmund Bragason, Berg Hinriksson og svo tók Friðrik Ragnarsson skóna fram á ný (notabene voru það hlaupaskór) og spilaði gegn lærisveinum sínum.
Sem fyrr segir blés ekki byrlega fyrir B liðinu og voru þeir fljótlega komnir 20 stigum undir í leiknum. Hvort það megi kenna þeirri staðreynd að fyrirliði þeirra Sigurbjörn Dagbjartsson var látinn byrja á bekknum skal ósagt. En það var nokkuð ljóst að A-liðið ætlaði ekki að falla í þá gryfju að vanmeta fyrirliðann. Um leið kappinn var kynntur til leiks var það Þorsteinn Finnbogason sem fylgdi honum eins og skugginn án þess þó að vita nokkuð hvað annað væri að gerast í leiknum. “Þetta er eins og að spila í frakka” sagði Sigurbjörn eftir leikinn lafmóður.
Sigurbjörn fyrirliði og "frakkinn" hans
Þjálfari B-liðsins var Jón Gauti Dagbjartsson og virtist hann á tímum eiga bágt með að hemja skap sitt gagnvart dómurum leiksins og lét þá heyra það óþvegið hvað eftir annað. Svo langt gekk hann, að Friðrik Ragnarsson furðaði sig á því hversu langt dómarar leiksins leyfðu honum að fara því aldrei fengi hann að nýta sér sama munnsöfnuð og Jón Gauti fékk grænt ljós á. En það kom þó að því að Jón Gauti uppskar tæknivíti. “ Við munum koma til með að skoða myndbönd af leiknum þar sem að nánast öll vafaatriði féllu fyrir hitt liðið. Maður eyðir tíma og orku í að byggja liðið upp í heilt ár fyrir akkúrat svona stórleiki og þetta þarf maður að þola” sagði Jón Gauti í lok leiks, grautfúll með frammistöðu sinna manna, dómara leiksins, aðstoðarþjálfara og ritaraborðið.
Jón Gauti að stappa stálinu í sína menn
En það má með sanni segja að Friðrik Ragnarsson þekki veikleika sins liðs vel og nýtti hann sér þá til fullystu. Kappinn setti niður 18 stig nánast án þess að blása úr nös og þrátt fyrir að vera skráður sem 109 kg maður, þá virtist hann vera léttur á fæti sem fermingardrengur og stóð sig með prýði í leiknum. “ Nú vita þessir guttar hver ræður” sagði Friðrik um leið og hann knúsaði Pál Axel og þakkaði honum fyrir góða rimmu.
Það hefði ekki hver sem er fengið að nýta sér þetta gamla bragð
Guðmundur Bragason var einnig nokkuð sprækur sýndi ungum leikmönnum A liðsins enga miskunn þegar kom að fráköstunum en hann hirti 22 stykki í gærkvöldi og geri aðrir betur.
Myndasyrpu úr leiknum má skoða hér