Fregnir þess efnis að Atlanta Hawks og heimavöllur þeirra Philips Arena verði selt á næstunni berast nú frá Bandaríkjunum. Samkvæmt heimildarmanni Associated Press sem vildi ekki láta nafn síns getið er það flatbökugreifinn Alex Meruelo sem hyggst kaupa liðið. Hawks munu þó ekki, samkvæmt heimildarmanninum, þurfa að flytjast úr borginni.
Meurelo hefur tjáð sig um málið og ljóst að þreifingar eru í gangi en Meurelo sagðist vilja koma meistaratitli til Atlanta. NHL-liðið í borginni, Atlanta Thrashers, hefur einnig verið selt og af sama hópi sem hyggst selja Hawks en sá hópur gengur undir nafninu Atlanta Spirit og mun hafa fengið um 170 milljónir Bandaríkjadala fyrir hokkýliðið.
Búist er við að Meruelo kaupi rúmlega 50% hlut í Atlanta og myndi það gera hann að fyrsta spænskættaða eiganda NBA deildarinnar.
Mynd/ Al Horford og félagar í Hawks eru hugsanlega að eignast nýjan yfirmann.



